18.11.2014 | 13:27
Á byrjunarreit...einu sinni enn... So what !
Verð að segja að það er óneytanlega þreytandi tilhugsun um að "byrja aftur uppá nýtt" einu sinni enn, koma sér af á lappir og af stað í öllu sem var í gangi fyrir aðgerð...og koma sér aftur í form !! En það er lífstíðarverkefni að vera í góðum lífsstíl, borða hollt, hreyfa sig og halda góðri heilsu og má aldrei gefast upp.
Ég var komin í ja..líklega mitt besta form hingað til, í byrjun ársins þegar skjaldkirtillinn krassaði algjörlega, náði samt að halda mér á nokkuð góðu róli framan af. Þetta var samt hrikalega erfiður tími meðan var verið að koma lyfjunum í rétt horf aftur og margir dagar/vikur þar sem eina afrekið mitt þann daginn var að stíga fram úr rúminu (sem var stundum svo sárt þar sem iljarnar voru svo bólgnar), klæða mig og leggjast í sófann. Æ frekar svartur tími !
En loksins í lok júlí fór orkan að komast í jafnvægi og í stað algjörlega ónýtra daga voru það bara klukkustundir þar sem var bara slökkt á mér og mér nægði að hvíla mig. Þvílík lífsgæði að fá orkuna sína aftur !!
En...þegar skjaldkirtillinn var loksins hættur að trufla lífið þá var mjöðmin með vesen...þannig að þá fór hreyfingin út um þúfur, allt járna ruslið í mjöðminni fór að ískra og var stöðugt að smella og klikka til. Þannig að þá var nú betra að fara varlega meðan var verið að finna út hvað ætti að gera.
Og þá erum við komin að deginum í dag. Í dag eru 4 vikur frá aðgerð og nú er komið gott af leti og nenn´ekki... Kominn tími til að taka til í lífsstílnum aftur, bústa upp próteinið, út með ljótu kolvetnin og inn með ræktina reglulega !
Það er alveg magnað að sjá og finna fyrir hvað 4 vikur í svo til engri hreyfingu geta gert manni...hvað þá heil mannsævi af hreyfingarleysi !! Ég ætla ekki að vera þar !!
Mér finnst ég vera eins og grjónapúði...grútlin og alskonar í laginu :-/ Engin vöðvamótun að ráði lengur, lærin fletjast út þegar ég sest, ýmislegt sem dinglar til hér og þar á líkamanum sem gerði það ekki áður...
En útlitið er engan veginn það sem ég er með hugann við, það sem er verst við það að vera ekki í reglulegri hreyfingu er líðanin í líkamanum. Mér er gjörsamlega illt allstaðar !! Hnakkanum og hálsinum, herðunum, handleggjunum, úlnliðunum, lófunum, fingrunum, öllu bakinu, sérstaklega milli herðablaðana og mjóbakinu, fótunum... Mér líður best í mjöðminni og svæðinu þar í kring, sem ætti að vera að valda mér mestum óþægindum. Þar sem fótleggurinn var aðeins lengdur þá er búið að strekkja vel á öllum vöðvunum í lærinu, og svo var auðvitað skorið í gegnum vöðvana yfir mjöðminni og stóra rassvöðvann, þannig að þeir eru núna að hamast við að herða sig og finna sig uppá nýtt...og getur verið svoldið erfitt að fá þá til að hlusta og gera eins og ég segi, þarf alveg að einbeita mér sérstaklega vel til að fá rassvöðvann til að kreppast... En þó að þetta sé allt sárt og óþægilegt þá er það EKKERT miðað við vanlíðanina útaf hreyfingarleysi.
Hvernig getur stór hluti fólks farið í gegnum lífið án þess að hreyfa sig ??
Ég er ekkert endilega að tala um brjálaða stera-bolta-rækt eða endalaus hlaup um allar götur... Bara létta hreyfingu til að koma hálf stöðnuðu blóði af stað, styrkja vöðva sem fá aldrei að láta til sín taka og muna varla lengur hvaða hlutverki þeir gegna, teygja á vöðvum sem fá aldrei að slaka á og eru í stöðgri vinnu útaf brenglun í líkamsstöðu og stoðkerfinu. Og svo bara leyfa líkamanum að afstressast með því að slaka á og anda...já ótrúlega margir sem bara anda ekki allt sitt líf !
Það er hægt að stunda fullkomna hreyfingu bara heima hjá sér og einu "tækin" sem maður þarf er bara maður sjálfur.
Svo dettur fólki í hug að kvarta undan verkjum og vandamálum en gerir svo kannski ekkert af þessum einföldu hlutum, sem kosta ekkert til að hjálpa sér. Ég veit að það er mjög auðvelt að "detta" í þann pytt að maður geti ekki hreyft sig af því að maður er svo slæmur hér og þar. Been there-done that !
Ég má hreyfa mig upp að sársaukamörkum...en það er mjög auðvelt að testa bara ekkert hvar þessi mörk eru, með því að vera ekkert að prufa að hreyfa sig, heldur bara halda í þá hugmynd að öll hreyfing sé óþægileg og segja sjálfum sér að það borgi sig nú ekki að hreyfa sig, maður gæti nú mögulega farið yfir strikið....
Ég þekki svo ótal marga sem eru að "drepast" í bakinu, eða alltaf illt í herðunum og hálsinum og þar af leiðandi geta þeir "bara ekkert" hreyft sig.
Ég get alveg lyft lóðum með höndunum...það er ekkert að höndunum á mér. Ég get lagst á gólfið og gert magaæfingar og bakæfingar...ekkert að mér þar, svo lengi sem ég passa mig á hvernig ég legst niður og stend upp, gæti meira að segja gert magaæfingar sitjandi. Og þó að ég sé með auma mjöðm get ég samt alveg hjólað létt, gert hnébeygjur, rassæfingar, læraæfingar ofl.
Að mínu mati þarf góð hreyfing að innihalda nokkra þætti: þolþjálfun, styrktarþjálfun, liðleikaþjálfun, slökun og öndun. Þannig að ef þú ert t.d. sá/sú sem ferð í göngutúr og tekur það sem hreyfinguna þína. Prufaðu að ganga aðeins hraðar af og til, og fara í brekku til að láta hjartað pumpa aðeins öðruvísi en vanalega, gerðu nokkrar hnébeygjur þegar þú kemur aftur heim, nokkrar armbeygjur, þess vegna upp við vegginn. Gríptu 2 mjólkurfernur eða settu vatn í 2 flöskur og lyftu þeim upp fyrir höfuð eða beygðu og réttu handleginn og æfðu byssurnar... Teygðu svo úr þér, beygðu þig niður í gólf, hreyfðu axlirnar í hringi, teygðu á hálsinum, fótunum..andaðu djúpt ofaní kviðinn á meðan og hugsaðu jákvæðar hugsanir, þú getur t.d. hrósað þér fyrir að hafa tekið þetta nýja skref í hreyfingu.
Ég veit það alveg af eigin raun að það ER erfitt að stíga út úr þægindunum og byrja að gera nýja hluti. Óþekkir vöðvar sem eru ekki vanir að þurfa að gera neitt, láta alveg í sér heyra þegar þeir þurfa að fara að vinna þannig að maður getur alveg verið aumur á nýjum stöðum fyrst. En það er bara eðlilegt og lagasta allt þegar maður heldur áfram. Bara hlusta á líkamann, taka eitt skref í einu og muna ÞÚ GETUR MEIRA EN ÞÚ HELDUR !
Ég held samt að hausinn á manni sé versti óvinurinn...þar er einhver rödd sem tekur alltof oft af manni völdin og segir manni alskonar vitleysu...t.d. að maður þurfi nú ekki að hreyfa sig í dag eða geti bara byrjað í næstu viku... Ég missti af mánudeginum, á maður ekki alltaf að byrja á mánudegi..?
Þess vegna er mikilvægt að vita af hverju maður vill breyta, t.d. setja inn hreyfingu. Finna ástæðurnar ÞÍNAR og gramsa eftir tilfinningunum fyrir þessum ástæðum. Því fleiri og dýpri ástæður sem maður finnur, því ákveðnari verður maður og því minna heyrist í þessari rödd sem eyðileggur alltaf allt. Og btw þetta á að sjálfsögðu við allt sem maður ætlar að breyta eða laga í lífinu. Ástæður og tilfinningar !
Mín ástæða fyrir þessari áráttu í hreyfingu er t.d. sú að ég á bara einn líkama og ég er búin að finna fyrir því hvernig líf það er að hafa hann ekki í lagi. Þegar ég var á hækjum í 18 mánuði þá voru svo margir hlutir sem ég gat ekki gert en voru settir á listann til að gera eftir að ég kæmist af hækjunum. Það var þá sem ég setti hreyfinguna í forgang og fann leiðir til að æfa hér heima þegar mér hentaði. Í langan tíma þá var það að skrölta upp stigann þar sem ræktin mín var, það sem gaf deginum gildi, ég gat dundað þar svo tímunum skipti. Það var líka þá sem ég virkilega upplifði hvað það gerir líkamlegu- og ekki síður ANDLEGU heilsunni gott að stunda reglulega hreyfingu. Ég man að sumir dagar voru erfiðir, þá efaðist ég um að ég ætti eftir að ná að labba aftur og ég sá fyrir mér að ég þyrfti alltaf að vera með hækjur...þegar þessar tilfinningar blossuðu upp var gott að geta sett "lagið mitt" í eyrun - ég á mér sérstakt lag sem kemur mér í rétt hugarfar - og séð fyrir mér hvernig ég væri orðin hækkjulaus, komin á fullt útí lífið aftur, glöð og hamingjusöm. Og tilfinningarnar urðu stundum svo miklar að tárin láku...gleiðtár við að sjá þessa sýn og upplifa tilfinninguna sem fylgdi því að vera loksins komin útúr þessu ástandi. En vá hvað mér leið alltaf vel eftir svona moment, og ég var ennþá sannfærðari um að þetta myndi allt ganga upp. Sem það gerði að lokum, þó að það sé smá hraðahindrun í gangi núna ;-)
Ég hugsa líka til framtíðarinnar, í gegnum árin vann ég lengi á öldrunardeildum og lyflækningadeildum og þar sér maður svo vel hvernig líkaminn getur brugðist okkur ef við förum ekki vel með hann. Ég á 4 dætur sem mig langar að eiga eins mörg ár með og ég mögulega get, og vonandi eignast slatta af barnabörnum og ef allar mínar óskir rætast fæ ég að sjá barna-barnabörn líka...verða langamma. En það er eitt að vera á lífi og annað að lifa lífinu...ég ætla ekki að taka neina sénsa. Mig langar að verða ofur hress langamma sem hlær, leikur og dansar við barna-barnabörnin sín. Og til þess að það geti gerst þarf ég að fara vel með líkamann minn, svo hann endist til þess að láta þennan draum rætast þar sem fortíðin er mér ekki sérlega hliðholl og ég gæti auðveldlega verið komin í kör á efri árum. Ég þarf að berjast á móti og toga þróunina í rétta átt !
Ein af mínum hugsunum þegar ég "lendi í einhverju" hefur alltaf verið "hvernig get ég lært eitthvað af þessu"? Ég er t.d. búin að komast að því að ég er sterkari en ég hélt, búin að læra að þyggja hjálp, læra að slaka á og sleppa því sem ég þarf ekki á að halda og gagnast mér ekki í lífinu, læra á þolinmæðina og fleira og fleira.
Í þessari umferð er ég búin að eiga ómetanlegan tíma í spjalli við dætur mínar og þær eru búnar að læra af viðhorfinu mínu og hvernig maður getur tæklað erfiðleika og hindranir. Ómetanlegur tími ! Það er alltaf hægt að finna þakklæti og lærdóm í öllu sem "maður lendir í" :-)
En þegar ég hugsa um þakklæti er margt sem kemur upp í hugann, ekki veraldlegir hlutir, heldur fólkið í lífinu mínu. Það er ekkert sem jafnast á við að eiga fjölskyldu og vini ! Og að fá að taka þátt með þeim í öllu DRAMANU sem lífið hefur uppá að bjóða, tækla þrautir, hughreysta þegar orusturnar tapast og fagna saman sigrunum...stórum og smáum... ÓMETANLEGT !
Þegar ég hugsa um það sem lífið getur skellt fyrir framan mann er ég svo óendanlega þakklát fyrir það að ég er bara að berjast við smá majðamavesen sem er einfalt að kippa í lag. Eitthvað sem ég get svo auðveldlega lifað með og átt eðlilegt líf, þetta er meira bara svona smá truflun þegar ég horfi á aðra í kringum mig og barátturnar sem þeir eru að eiga. Og það er þetta fólk sem veitir mér innblástur og hvatningu í að halda áfram og tækla mínar liltu holur í vegninum.
Ég vona að þeir sem nenntu að lesa þetta í gegn hafi fengið smá innblástur og hvatningu í að taka sitt næsta skref í að hugsa um líkamlegu- og andlegu heilsuna, finna lærdóminn í erfiðleikunum og muna eftir öllu því sem við getum verið þakklát fyrir.
-Ást og friður-
Athugasemdir
Góður pistill Halldóra, gæti ekki verið meira sammála þér. Hreyfing þarf ekki að snúast um eitthvað flókið, dýrt eða þungt í vöfum, aðeins apurning um að spila úr því sem maður hefur og getur. Oft getur maður mun meira en maður heldur. Gangi þér áfram vel.
Gústa (IP-tala skráð) 19.11.2014 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.