Aðgerðardagur

Kvöldið fyrir aðgerð er helling sem þarf að gera...  Skipta á rúminu, vera klár með hrein föt og sokka, fjarlægja alla skartgripi og naglalakk, fara síðan tvisvar í sótthreinsisturtu þar sem maður skrúbbar sig frá toppi til táar með sótthreinsi svamp, þar með talið hárið...  Eftir þetta líður manni eins og hertum fisk...með vírhár.  Svo var það róandi tafla og blóðþynningarsprauta.
Vaknaði kl. 06 að morgni aðgerðardags og fékk mér eitt glas af H3O, sem er íþróttadrykkur frá Herbalife og inniheldur kolvetni, sölt og steinefni.  Gott fyrir átökin.  
Þegar ég kom niðrá spítala var að skella sér aftur í sótthreinsisturtu (þarna leið mér eins og húðin væri að rifna og hárið að detta af) og svo í fallega spítalagallann.  Síðan var sett upp nál, farið yfir tékklistann...hvort að þetta væri ekki örugglega ég og hvort að það væri búið að merkja mig.  Ég mátti alsekki fara inná skurðstofu nema læknirinn væri búinn að koma og merkja aðgerðarsvæðið.  Mér skildist á hjúkkunum að það þyrfti oftast að hringja eftir honum, hann kæmi ekki svona bara uppúr þurru að tékka á sjúklingunum sínum.
Eftir góða stund á undirbúningstofunni birtist snillingurinn...strunsaði að stólnum mínum, svipti upp teppinu, tússaði á mig ör, snérist við og æddi í burtu um leið og hann sagði "sjáumst"...  Vá..really ?! ehh...hvað varð um einfalda kveðju eins og "góðan daginn"...bara svona eins og þegar er komið að manni á kassanum í Bónus...
 
Ég rölti svo inná skurðstofu...  Skrítið að labba þarna í gegn, fyrsta hugsun var einhvers konar verksmiðja, reyndi að bægja orðinu sláturhús frá mér.  Allir voru "gallaðir upp" með "lambhúshettur" þannig að það sást bara rétt í andlitið á þeim.  Sumir voru að ýta á undan sér risagrindum með alskonar bökkum og varningi á...það var allt iðandi af fólki þarna.  Inná skurðstofunni mætti mér mjór bekkur, risa kastarar á örmum, alskonar skjáir og n.k. járnkoffort af öllum stærðum röðuð uppá hjólaborðum.  Ég giska á að þetta hafi verið verkfærakisturnar sem læknarnir nota í aðgerðinni.  Það þarf helling af tólum og tækjum fyrir svona brutal aðgerð.
 
Ég lagðist uppá bekkinn, var tengd við alskonar monitora og slöngur og fékk mænudeyfingu, fljótlega gat ég mig ekki hreyft fyrir neðan mitti og var bara hreyfð...í þá stellingu sem þurfti fyrir aðgerðina, pakkað inn að ofan þar sem skurðstofan er kæld niður meðan á aðgerð stendur.  Fékk síðan "kæruleysislyf" sem gerir mann svoldið dröggeraðann...besta tilfinning í heimi hehehe.  Svæfingalæknirinn var yndisleg kona sem útskýrði allt sem var að gerast fyrir mér.  Ég var vel vakandi í gegnum alla aðgerðina, en reglulega var hún að spyrja hvort hún ætti ekki að svæfa mig meira.  Ég neitaði því alltaf, er svo forvitin og vildi fylgjast með eins mikið og ég gat...var næstum því búin að biðja hana að taka teppið betur frá eyranu á mér svo ég myndi heyra betur hvað var verið að segja...en kunni ekki við það.
Sumum finnst kannski hálf óhuggulegt að vita af sér á meðan allt er í gangi, en þar sem ég var í upphafi hrædd við að vakna ekki, fannst mér frábært að sofna bara ekkert.  Og svo finnst mér þetta allt svo áhugavert.  En jú viðurkenni að það er svoldið skrýtið að finna höggin dynja á sér þegar er verið að banka liðinn úr og finna fyrir fræsaranum þegar var verið að fræsa fyrir nýju mjaðmaskálinni...allt samt svona í fjarska.  Þegar aðgerðin var búinn og var verið að flytja mig yfir í rúm til að fara á vöknun varð mér litið á skurðlækninn sem var alsettur litlum blóðslettum alveg upp á háls, þetta er svoldið brútal greinilega hehehe.
 
Ég hef sjaldan verið svona hress eftir aðgerð, var vel vakandi þegar ég kom inná vöknun og allt gékk vel...þangað til ég fékk morfíntöflu undir tungu, þá hrundi blóðþrýstingurinn, ógleðin heltist yfir mig og allt var að fjara út.  En hjúkkurnar voru snöggar að redda þessu með einhverjum lyfjum og mér leið strax betur og sofnaði góða stund.  Aðgerðin tók uþb 2 tíma og tíminn á vöknun ca 4 tímar.  Uppúr kl. 14 var ég orðin eirðarlaus og vildi bara fara að komast á deildina og hitta Malla, fékk svo loksins að fara þangað um 14.30.
 
Það var gott að komast niðrá deild, fá aðeins að hreyfa sig til í rúminu. Ég var orðin glorhungruð sem er nú óvanalegt hjá mér eftir aðgerð...oftast fundið fyrir mikilli ógleði.  
Loksins kom kaffitíminn og mér var boðið kaffi og marmarakaka....  Ehhh...ekki alveg það sem mig langaði í eftir átök dagsins.  Og klárlega ekki það næringarríkasta sem maður getur sett ofaní sig eftir aðgerð !!  En ég fékk ristað brauð og eplasafa.  
Allt gékk vel framan af, Malli, mamma, Eyrún og Áslaug kíktu til mín, það var svo gott að sjá alla.  En svo kom að því... allt fór að hringsnúast og fjara út.  Eyrún sagði "mamma þú ert orðin hvít í framan og varirnar þínar eru hvítar"!  Á sama tíma snérist maginn við og ég skilaði brauðsneiðunum.  Blóðþrýstingurinn féll niður í 70/40, á að vera 120/70, og hressleikinn var búinn.  Eftir þetta sofnaði ég bara og svaf frameftir kvöldi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband