Það ískrar í mér !

Þá aftur að mjöðminni...

Í lok maí 2014 brá mér heldur betur...var að setjast þegar allt í einu ískraði í gerfiliðnum...  Ég prufaði að setjast og standa nokkrum sinnum og alltaf kom skerandi ískur.  Síðan bættust við smellir og klikk.  Fyrst fannst mér þetta bara svoldið fyndið og ég grínaðist með að nú þyrfti ég að fara að koma mér í smurningu.  Um kvöldið datt mér svo í hug að googla hvort að þetta gæti tengst eitthvað skjaldkirtlinum, þar sem hann var búinn að vera með svo mikið vesen, hver veit nema hann væri eitthvað að hafa áhrif á þetta líka.

Hjartað í mér tók kipp þegar ég las fyrstu greinarnar...og eftir því sem ég las meira fór maginn að fara í hnút líka.  Það sem blasti við mér var sjokkerandi !  Það hafði komið í ljós á svipuðum tíma og ég fékk liðinn minn að metal-on-metal liðir væri að valda fólki stórtjóni.  Fyrst var talið að þetta væru bara liðir frá ákveðnum framleiðanda og af ákveðinni stærð...en síðar kom í ljós að þetta átti við flest alla metal-on-metal liði.  

Það sem gerist í þessum gölluðu liðum er að það sverfist úr járninu með hverri hreyfingu, þessar járnagnir fara út í nærliggjandi vefi og geta valdið drepi í mjúkvefjum og beinum.  Einnig fara þær útí blóðráðsina og geta valdið Króm og Kóbalt eitrun, sem eyðileggur innkirtlakerfið. Einkennin á gölluðum lið: ískur, smellir og klikk ásamt hækkun á málmgildum í blóðinu s.s. króm og kóbalt og ónýtur skjaldkirtll !

Úff...!!  Við Malli lásum og grömsuðum og lásum meira.  Ég náði svo loksins sambandi við bæklunarlækninn minn (sem sendi mig í aðgerðina upphaflega, en ekki sá sem síðan skipti um liðinn).  Hann vildi fyrst ekki viðurkenna að þetta ætti við hér á Íslandi.  Sagði þetta bara vera tengt svokallaðri resurfacing aðgerðum (þá er sett málm hetta ofaná mjaðmakúluna, en ekki skipt um lið), svo sagði hann að þetta ætti bara við liðskipti þar sem notaðir væru extra stórir liðir, en svo í lokin "viðurkenndi" hann að þetta ætti reyndar við alla málmliði.  Þar sem ég var búin að lesa mér mjög vel til, lesa niðurstöður samtaka bæklunarlækna í Ástralíu, UK, Canda og USA og lesa fundargerð frá FDA þá þýddi ekkert að reyna þetta við mig.  Hann benti mér hins vegar á að tala við lækninn sem að skar mig þar sem þetta væri úr hans höndum.

Heimilislæknirinn minn sendi mig í blóðprufu til að mæla króm og kóbalt...þegar niðurstaðan kom úr því vildi hann helst að liðurinn yrði fjarlægður strax !  Kóbaltið var í efstu mörkunum eða rétt yfir eitrunarmörkum og krómið var tvöfalt sem það má vera, þannig að það var augljóst að eitthvað af þessum málmum úr liðnum var að eitrast út í blóðið. 

Mig kveið nú svoldið fyrir að hringja í skurðlækninn minn...hann er ekki sá besti í samskiptum, eiginlega bara hræðilegur og ef að hinn tók þessu svona illa og vildi bara hálfpartinn eyða þessari umræðu...þá var ég nú viss um að þessi nennti ekki að tala við mig. 

Mannaði mig uppí að hringja og brá eiginlega þegar hann vildi senda mig strax í röntgen og skvísa mér að hjá sér vikuna á eftir.  Fyrsti fundurinn með honum var hálf asnalegur (reyndar allir fundirnir)...fyrst gat hann ekki kveikt á tölvunni sinni til að skoða röntgen myndirnar, Malli var kominn hálfur hinumegin við borðið að hjálpa honum.  Endaði með því að við fórum fram í afgreiðsluna og þar skoðaði hann og greindi myndirnar.  Hann sá ekki neina beineyðingu og sagði þetta bara vera fínt.  Gott og vel...en hvað með stóru holuna sem er komin í vöðvana kringum liðinn, niður eftir lærinu og útá rasskinn...getur eiginlega snert lærlegginn.  Fyrst byrjaði hann að skoða mig eitthvað þarna í afgreiðslunni en áttaði sig svo að það væri smartara að gera það inná stofunni !!  Magnað !  Jú það var eitthvað bogið við þetta, best að ég færi í segulómun.  Þegar ég spurði útí hækkun á krómi og kóbalti og skjaldkirtilinn gerði hann bara lítið úr því, sagði að enginn vissi nákvæmlega hver mörkin ættu að vera eða hvaða áhrif það hefði að vera yfir þessum "svo kölluðu" mörkum.  Og svo sagði hann: "það er hægt að lesa sér til um allt og tileinka sér einkennin" !  Þar hafði ég það...ég var bara móðursjúk kelling sem gerði sér upp sjúkdóma...

4 vikum seinna hringdi hann í mig með niðurstöðurnar úr segulómuninni...það var langt samtal sem gaf mér lítil svör.  Hann sá sem sagt engin "gerfiæxli" - eitthvað sem er að myndast oft við þessa liði og er eitt af einkennum um ónýtan lið.  Við ræddum þetta fram og til baka og alltaf var lítið innihald í svöturnum, á endanum sagði hann að fyrst að þetta væri farið að fara svona á sálina á mér þá væri bara best að taka liðinn !  WHAT ?! Heldur maðurinn að hann sé bara að fjarlægja vörtu af mér eða...  Það er ekkert grín að fara í aðgerð og fá nýjan lið, það er ekki eins og það sé hægt aftur og aftur. 

Ég vil taka því fram að ég var ekki í sambandi við hann til að láta taka liðinn, eina sem ég vildi var almennileg skoðun á því hvort að liðurinn væri í lagi eða hvort að ég ætti að hafa áhyggjur.  Það síðasta sem ég vil er að fara í aðgerð...af svo ótal mörgum ástæðum.  En ég vil heldur ekki hafa eitthvað inní mér sem er að eitra útfrá sér og eyðileggja líffæri og éta upp mjúkvefina.

Eina sem ég vild var bara hreinskilin svör frá sérfræðingum á þessu sviði... Og spurningin var: Þarf ég að hafa áhyggjur eða er ég í góðum málum ?  Svörin: loðin eða engin, eða að ég væri móðursjúk, læsi of mikið á netinu og með vesen.  Mér finnst það ekki vera mjög faglegt...hvað þá árið 2014 þegar fólk er nokkuð vel upplýst og hvatt til þess að fylgjast með þegar kemur að heilsu og eigin velferð.

Niðurstaðan úr þessu símtali var fundur með honum niðrá Lansa þar sem hann komst betur í öll gögnin mín.  Sá fundur tók um 90 mínútur...aðalega af því að hann var alltaf að bulla eitthvað...sem kom spurningunni minni ekkert við.  Þegar ég minntist á að heimilislæknirinn minn hefði haft samband við kollega sinn í Svíþjóð sem er sérfræðingur í liðskiptingum og sá aðili sagði að þeir væru að fjarlægja þessa tegund af liðum...þegar fólk væri opnað kæmi í ljós að allir vefir væru í hálfgerðu mauki, sérstaklega hjá konum.  Svarið sem ég fékk við því: "Iss...hann XXX, veit alveg hver hann er, hann kemst ekki með tærnar þar sem ég hef hælana" !  Þarna átti ég bara ekki til orð........

Það var alveg sama hvað Malli reyndi að spyrja um eða kommenta á...það var eins og hann væri ekki þarna með okkur, læknirinn talaði bara ofaní hann eða lét sem hann heyrði ekki hvað hann var að segja.  Það var ekki fyrr en Malli byrsti sig og hélt áfram að tala og hækkaði róminn að hann svarði loksins.  Malli sagði: "Eina sem við viljum vita, þarf að taka liðinn eða er óhætt að hafa hann áfram?"  Þá loksins kom svar byggt á einhverju áliti.  "Mín skoðun er sú að það sé betra að taka hann, vil ekki hætta á að þú komir aftur eftir 2 ár og þá er allt komið í graut".  Ok þá höfðum við það.  

Af hverju var bara ekki hægt að skoða þetta almennilega, meta og gefa okkur heiðarlegt svar strax í upphafi.  Eða t.d. viðurkenna að þetta væri snúið mál...og ekki til nein hrein og bein svör.  Af hverju þurfti þennan töffaraskap og hroka og ég sem áhyggjufullur "þolandi" að eltast við að fá svör og líða á tímabili eins og móðursjúkum kjána.  Skil ekki svona framkomu og hegðun !

Þarna var svo settur upp aðgerðadagur 21. október, þar sem einhver sænskur læknir er þá staddur á landinu og vill vera viðstaddur aðgerðina.  Og þar með var fundi slitið.

Fyrsta sjokkið kom þarna um kvöldið, þrátt fyrir að ég hafi fundið það á mér þegar ég uppgvötaði þetta fyrst að þetta yrði niðurstaðan...samt voru þetta gríðarleg vonbrigði !  Næsta sjokk kom nokkrum dögum seinna þegar læknirinn hringdi og sagði að þetta yrði meiri aðgerð en hann bjóst við þar sem hann fengi ekki réttu "varahlutina" og yrði því að fjarlægja skálina sem er greipt inní beinið...smá vandræði...þar sem það er ekki svo mikið bein fyrir.

Ég ákvað að leyfa mér að vera sár, svekk, hrædd og reið...en bara í nokkra daga.  Veit að svoleiðis hugarfar kemur manni ekki langt.  Setti upp plan fyrir andlegan og líkamlegan undirbúning og ákvað að 1. september yrði dagurinn sem ég myndi byrja. Verð að viðurkenna að það er ekki alltaf búið að standast...suma daga hefur skjaldkirtillinn fengið að ráða deginum og þá þurfti ræktin að víkja og suma daga hef ég bara gleymt að stilla hugarfarið í upphafi dags og enda ekki á góðum stað...  En svo lengi sem maður er alltaf að gera sitt besta og reyna að gera betur í dag en í gær, trúi ég því að maður sé á réttri leið.

Efi og ótti...  Ég var lengi með efasemdir um að treysta lækninum, viss um að hann myndi ekki gefa mér heiðarleg svör um ástandið á þessu öllu þegar hann opnar mig...  Með ótta um að aðgerðin takist, ég geti gengið og gert það sem mig langar til eftir þetta allt.  Og í fyrsta sinn á æfinni hef ég fundið fyrir hræðslu við að fara í aðgerð...að ég muni hreinlega vakna aftur...er nú búin að fara í þær nokkrar í gegnum árin.

En ég get bara stjórnað þessu upp að ákveðnu marki, svo verð ég bara að sleppa takinu og treysta á æðri mátt, þetta er ekki í mínum höndum.  Og þegar maður gerir það finnur maður fyrir svo miklum létti...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að læknar hræðist fólk sem leitar sér upplýsinga á netinu. Þeir fara í vörn og svara með hroka og dónaskap!!! Fólk þarf virkilega að hafa bein í nefinu til að sannfæra þá, eins og það getur nú verið erfitt þegar orkan er farin.

Gangi þér rosalega vel Dóra mín <3

Gudbjorg S Jonsdottir (IP-tala skráð) 20.10.2014 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband