8.7.2009 | 19:16
Er ég þolinmóð ???
Ég veti ekki hvernig mér datt í hug að ég gæti bara hent frá mér hækjunum á einum degi ! Þetta á nú eftir að taka töluvert lengri tíma en ég gerði mér grein fyrir...
Sjúkraþjálfarinn sem er sérfræðingur í bæklunarendurhæfingu (minn er í fríi) byrjaði á því að spyrja mig hvort ég sé þolinmóð... Ég sagðist halda það...væri búin að vera sæmilega þolinmóð þessar 8-9 vikur. Þá gerði hann mér grein fyrir því að þessi tími er mjög stuttur eftir svona stóra aðgerð. Ég mætti gera ráð fyrir því að taka 6 mánuði í að koma mér vel á lappir og svo eftir ca. ár gæti ég gert ráð fyrir að vera komin á núll punkt.
Auðvitað er ég ekki bara að vinna upp tímann síðan aðgerðin var gerð....heldur síðustu árin líka. Síðustu 3 ár hef ég jafnt og þétt verið að hlífa fætinum meira og meira...og frá því síðasta haust er ég búin að vera í hálfgerðum "vernduðum" hreyfingum með fótinn. Ásamt því að ganga skökk og skæld....
Þannig að það er mikið sem þarf að vinna upp !
Ég er samt búin að vera að nota eina hækju síðan um helgina og það gengur vel, hef hins vegar tekið 2 með mér ef ég er að fara í eithvað lengra labb. Ég er líka farin að keyra sem er gríðarlegt frelsi !!!!
Sjúkraþjálfunin gengur vel, ég fékk að fara á göngubretti á þriðjudaginn... Labbaði rólega í 3 mínútur með því að halda mér í, reyndi að ganga án þess að setja nokkurn þunga á hendurnar og það gékk ekki.
Er líka farin aftur til hnykkjarans, þar sem ég var orðin ansi stíf í mjóbakinu og farin að finna aftur til í hálsinum.
Ætli sé ekki hægt að segja að ég sé ágæt.... Ég finn vel fyrir því þegar ég geng, sit, ligg og bara hreyfi mig, en ég get ekki sagt að ég sé með verki.... En viðmiðin mín eru kannski svolítið brengluð, þar sem ég var með svo mikla verki í langan tíma fyrir aðgerðina og orðin vön því.
Ég endaði samt á því að taka 2 panodil í gær áður en ég fór að sofa....það borgar sig ekki að vera of þrjósk, en ég ætla nú samt að þráast við að taka eitthvað mikið sterkara !
Ég er með pínu áhyggjur af ferðinni okkar til Prag... Við förum eftir 2 vikur og miðað við stöðuna núna geri ég ekki ráð fyrir að verða farin að ganga eins og Topp módel. Ætli ég þurfi ekki að taka hækjuna með allavega, þar sem það getur reynt töluvert á labbið í þessum ferðum.
Þannig að ég er sem sagt að fara að læra að ganga EINU SINNI ENN ! En allt er þegar þrennt er...er það ekki ? Fyrst þegar ég var kríli..svo eftir fyrstu aðgerðina um 5 ára og svo núna aftur 36 ára ! :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2009 | 12:48
Ekki allt búið enn......
Ég fór loksins og hitti bæklunarlækninn og fór í röntgen. Mjöðmin lítur vel út og gróandinn er fínn en útkoman var, samkvæmt leiðbeiningum frá Kjell (sá sem skar mig) á ég að taka 2 vikur í að trappa niður hækjunotkunina og æfa fótnn í að halda uppi fullum þunga. Þannig að ég má setja fullann þunga á fótinn en á að gera það í skömmtum.....
Að vísu á læknirinn úti eftir að sjá myndirnar en ég geri ekki ráð fyrir öðru en að allt verði í gúddí.
Þannig að í gær var ég að prufa að ganga hér heima bara með 1 hækju sem tókst bara vel !! :-) Og í morgun tókst mér í fyrsa sinn í rúma 2 mánuði að labba inní stofu með morgun te-bollann minn SJÁLF !
Ég verð að viðurkenna að það var smá svekkelsi að fá ekki bara að skilja hækjurnar eftir hjá lækninum og labba sjálf út.....en bara fyrst. Fyrst fannst mér eins og þetta væru 2 vikur til viðbótar en svo fattaði ég að það hefði hvort eð er orðið svona....því þó að ég vonaði að ég gæti hent hækjunm strax þá tekur alltaf tíma að venja sig á að ganga eðlilega aftur....og nauðsynlegt að hafa hækjurnar til taks þegar þreytan gerir vart við sig.
Þannig að ég er bara sátt og spennt yfir því að þetta sé loksins að verða búið...það er að segja þessi fyrsti áfangi. Næsti áfangi fer í að ná upp fullum styrk, passa uppá hreyfigetuna og liðleikann. Ég geri alveg ráð fyrir að restin af þessu ári fari í að fínpússa þetta allt saman. Þannig að það verður gaman um áramótin þegar árið verður gert upp og stillt upp í nýtt ár..... :-D
Ég er að vísu búin að vera eitthvað slæm í mjöðminni undan farna 10 daga.... "Boltinn" sem ég finn fyrir í náranum er búinn að vera að trufla mig - er auðvitað ekki bolti en þannig er tilfinningin. Ég á erfitt með að lyfta fætinum, draga hnéð að brjósti og fleiri svona hreyfingar. Og á fimmtudaginn var ég það slæm að ég þurfti að taka 2 verkjatöflur. Ég get samt ekki hugsað mér að taka neitt sterkt, þar sem ég er svo ánægð að vera hætt þeim viðbjóði...þannig að ég ákvað að prufa að taka 2 panodil og fara að sofa....það virkaði svo ég er sátt.
En ég virðist vera að skána núna.... Ég veit að það geta komið erfiðir dagar og afturkippur....þá er bara að slaka betur á og bíða eftir að það líði hjá.
Þannig að nú fara næstu dagar bara í að ná tökum á því að ganga eðlilega aftur.....og smátt og smátt án þess að nota hækjurnar !! :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 16:21
8 vikur í dag...en ekki frjáls ennþá :-/
Jæja þá er loksins dagur númer 56 á hækjum runninn upp...þ.e. vika 8. Þetta hefði átt að vera dagurinn sem ég gæti hent frá mér hækjunum og hlupið um allt með sólskins bros á vör, en því miður gat læknirinn minn ekki tekið á móti mér strax til að sleppa mér lausri !!!! Ég kemst að hjá honum á fimmtudaginn og fer þá í röntgen og fæ væntanlega grænt ljós. Ég var nú ekkert voðalega glöð að þurfa að bíða þó að þetta séu ekki nema nokkrir dagar, fyrir mér eru þeir margir og lengi að líða !
Annars gengur allt nokkuð vel, en ég er þó mis góð í mjöðminni. Ég finn oft fyrir "tennisboltanum" sem tekur sér bólfestu reglulega í náranum og pirrar mig mikið þegar ég hreyfi mig og/eða lyfti fætinum. Ég finn ekkert til við að stíga í fótinn, bara þegar ég lyfti upp fætinum eða dreg hnéð að brjósi (sem ég get ekki gert alla leið ennþá að vísu). Ég ætla rétt að vona að það lagist þar sem þetta er mjög svo pirrandi og sárt !
Ég er hins vegar búin að vera að gera hitt og þetta síðust vikurnar, fór á ball fyrir viku og dansaði þar á "einari" (öðrum fæti) allt kvöldið. Ég var furðu góð daginn eftir, aðeins þreytt í hinum fætinum, en bara styrkari ef eitthvað í þessari löskuðu. Venjulega hefði ég legið daginn eftir og úðað í mig sterkum verkjalyfjum, ég tók hins vegar bara 2 panodil og var góð.
Mér tókst líka að baka um daginn, fullt af snúðum fyrir ferðalag okkar vestur. Hoppaði um eldhúsið með degið og bökunarplöturnar....ég verð alveg að viðurkenna að ég var ansi þreytt eftir það ! En mér gékk ótrúlega vel að sitja í bílnum alla þessa klukkutíma vestur og þetta var í fyrsta sinn í einhver ár sem ég yfirgef heimili mitt og fer í ferðalag ÁN VERKJALYFJA ! Þvílíkur sigur !
Sjúkraþjálfunin gengur vel....ég hjóla alltaf í hvert skipti, að vísu án allrar mótstöðu. Svo erum við alltaf að auka álagið pínulítið í æfingunum...en það er merkilegt hvað það getur verið erfitt að gera sumar af einföldustu æfingunum ! Ég fer í tíma á föstudaginn og ætla þá að sleppa hækjunum með aðstoð sjúkraþjálfarans.... Mig kvíður pínulítið fyrir að sleppa þeim en ég er viss um að það verður svo ekkert mál.
Núna má ég fara að gera fleiri og flóknari æfingar og um leið og ég er laus við hækjurnar og farin að keyra aftur ætla ég að fara í sund. Bæði til að synda og líka bara til að ganga...æfa mig í vatninu.
En núna er bara að taka á síðustu metrunum af þolinmæði og krossleggja puttana um að röntgenmyndirnar sýni að mjöðmin sé vel gróin og ég geti farið að hlaupa. Mikið hlakkar mig til þegar ég verð bara komin yfir þetta, búin í endurhæfingu og get gengið eins og ég vil án sársauka og verkjalyfja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2009 | 19:32
Það styttist í frelsið !!
Það er sko akkúrat þannig sem mér líður þessa dagana...eins og ég sé loksins að verða frjáls, eftir að vera búin að vera í BÚRI síðustu 3 árin, eða frá því að ég lenti í bílslysinu. Því þegar ég var að ná mér af því tók mjöðmin við. En nú fer þessu öllu að ljúka og þá hefst nýr kafli ! :-D
Það er heilmikið búið að gerast síðan síðast.... Þó að afrekin séu kannski mest eitthvað sem ég ein tek eftir og er erfitt að útskýra. En ég er alltaf að finna fleira og fleira sem ég hef ekki getað gert fyrir aðgerð en er farin að geta núna, alskonar litlar hreyfingar, beygjur og réttur.
Sjúkraþjálfunin gengur mjög vel, síðast hjólaði ég í 10 mínútur án mótstöðu, og gékk síðan mjög vel að gera allar æfingarnar mínar. Sumar hreyfingar eru samt ennþá erfiðar, en ekki svo sárar, bara erfitt að láta fótinn hlýða almennilega. Þannig að það tekur á og ég titra og skelf og fæ svo harðsperrur eftir á. En það er í góðu lagi, ég vissi alltaf að það myndi taka á að ná fullum styrk en ég er meira en tilbúin í þá vinnu.
Ég náði merkum áfanga á laugardaginn og hélt svo áfram með það í dag..... En ég fór í ræktina !!!!! Ég er með líkamsrækt á efri hæðinni, þar sem ég er með fjölþjálfa, lóð, bolta, dýnu og fleira. Ég kemst að vísu ekki á fjölþjálfann ennþá en ég hitaði bara upp með léttum lóðum og þyngdi svo eins og hentaði. Sat ýmist eða stóð á öðrum fæti og studdi mig við eina hækju. Ég náði að þjálfa vel fyrir efri hlutann og gerði svo æfingarnar mínar sem ég á að gera fyrir fæturnar. Ég fékk síðan smá aðstoð frá Betu við að leggjast á dýnuna á gólfinu og standa upp aftur, en þar geri ég magaæfingar og fótaæfingar með stórum bolta. En í dag gat ég þetta allt ein og óstudd.
Þetta er þvílíkur sigur þar sem að það er mitt líf og yndi að taka góða líkamsrækt nokkrum sinnum í viku meðan ég hlusta á uppáhaldslögin mín og tek svo góðar teygjur og slökun í restina.
Þannig að núna finnst mér ég vera virkilega komin til baka og er eiginlega orðin mjög óþolinmóð með að losna við hækjurnar. En í dag eru 6 vikur búnar og ennþá 2 vikur eftir ! Einhvern veginn held ég að þær eigi eftir að líða hægar en allar hinar.
Ég er farin að geta hjálpað aðeins meira til....t.d. sett aðeins í uppþvottavélina, mallað smá mat, bakaði meira að segja nokkrar pönnukökur á laugardaginn. En þar sem ég þarf að gera þetta meira og minna á öðrum fæti, er ég frekar fljót að þreytast. En það er gott að geta lagt eitthvað af mörkunum við heimilisstörfin.
En Adda, tengdamamma, er ennþá að koma einu sinni í viku og þrífa hérna sem er allgjör lúxus !! Það getur alveg farið í mínar fínustu að geta ekki sópað eða týnt upp drasl og sett á sinn stað....merkilegt en mig hlakkar hálfvegis til að geta farið að sinna þessu aftur. Svo er spurning hversu lengi það endist...hehehe
Ég er ekki farin að keyra neitt ennþá, þó ég hafi fært bílinn til einu sinni.... En ég mætti það nú líklega þar sem ég er ekki á neinum lyfjum, en ég bara treysti mér ekki til að vera í umferðinni strax meðan ég er ekki alveg komin í lag. Á meðan hefur Lína systir verið að skutlast með mig í sjúkraþjálfun, Kringluna og svona stúss. :-) Yndislegt að eiga svona góða að !!!!
Ég fæ ekki tíma hjá lækninum fyrr en 2. júli, en 29. júní eru komnar akkúrat 8 vikur, þannig að mér finnst svoldið fúlt að geta ekki bara skutlað hækjunum frá mér strax. En ég bað um að læknirinn myndi hringja í mig, hann þarf í rauninni bara að skrifa beiðni um röntgen og senda myndirnar út til DK. Ég þarf meira að segja ekkert að hitta hann.....bara komast í röntgen og hann sendir þær svo.....og hringir með niðurstöðuna.
Eitt gott mál líka.....hef ekki þurft að taka eina einustu verkjatöflu...þrátt fyrir allt puðið !!!
Þannig að allt er í rétta átt og gott betur :-D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2009 | 14:32
Sæl með sólheimaglottið út að eyrum!
Ég fór í sjúkraþjálfun í gær og það er bara ótrúlegt hvað ég er farin að geta gert mikið. Og hvað styrkurinn er kominn mikið til baka. Nú þarf tíminn bara að líða hraðar svo þessar hækjur fái að fjúka.
Svona virkar góð næring og góður undirbúningur bæði næringarlega og líkamlega fyrir aðgerð ! Það er staðreynd að maður þarf ekki að vera í gifsi/hreyfingarleysi lengi til að vöðvarnir byrji að rýrna....einhverjar klukkustundir þegar ferlið byrjar ! En með því að passa uppá próteinið bæði fyrir og eftir aðgerð hefur mér tekist vel að viðhalda vöðvum og er því fljót að endurheimta styrkinn minn. Þetta er ástæðan fyrir því að sjúkrahúsið úti KREFST þess að maður drekki próteinsjeika strax og maður vaknar eftir aðgerðina og síðan a.m.k. 2-3 á hverjum degi ! :-D Þau voru gríðarlega ánægð að ég skildi koma með mína eigin og lásu utaná þá og sögðu að þetta væri mikið betra en það sem þau gætu boðið uppá.
Sjúkraþjálfarinn er algjörlega orðlaus yfir þessum árangri, á ekki lengri tíma en 2 vikum ! Hún var að minnast þess að þegar ég kom í fyrsta tímann gat ég með engu móti lyft fætinum frá gólfi ef ég stóð og gerði hnélyftu.....náði ekki að lyfta stóru táinni frá gólfi. Núna get ég lyft bara ansi hátt og það 10 x í röð. Miklu hærra en ég gat nokkurn tíman fyrir aðgerð...þá gat ég bara rétt lyft ca 10-15 cm upp frá gólfinu...og bara einu sinni !
Kreppan (ekki peninga) sem var komin í mjöðmina er líka á undanhaldi og SÞ getur teygt mig mikið meira til ásamt því að ég get legið mun lengur alveg flöt. Það er samt einn galli á batanum....ég er farin að sofa svo mikið á hliðinni...og þá er ég með bogin hnén. Þannig að ég á að fara reglulega inní rúm yfir daginn og liggja á maganum. Gat gert fullt af æfingum með bolta líka...teygt og strekkt og beygt og alles !
En mesta snilldin var samt að fá að fara á þrekhjól !!!!! Ég mátti hjóla í 5 mínútur, að vísu án þess að hafa nokkra mótsöðu á hjólinu... EN vá hvað þetta var mikill áfangi og frábær tilbreyting. Góð hreyfing fyrir liðinn og mesta furða hvað ég gat þetta auðveldlega og ÁN ALLRA VERKJA - SAMT VERKJLYFALAUS !!!!! Og svo fékk ég líka að fara í tvö tæki og gera æfingar fyrir efri hlutann.
Þannig að líkamsræktar-lóða-lyftingar-fríkið-ÉG er alveg í skýjunum og sat þarna á hjólinu með "sólheimaglottið" út að eyrum....bara eins og ég væri úti í náttúrunni að hjóla alein ! Og þar sem ég get komist upp stigann hér heima og þar með upp í líkamsræktina þá ætla ég að fara að lyfta lóðunum mínum aðeins og gera æfingarnar mínar og svona...ásamt bolta æfingum. ENGAR ÁHYGGJUR...allt í samráði við sjúkraþjálfarann ! :-D
En ég viðurkenni það líka að ég var alveg vel þreytt í gærkvöldi...kannski líka af því að þriðjudagar eru vinnudagar og kvöld hjá mér. Ég er aftur mætt á fundina mína og farin að taka þátt, það tekur ansi á að sitja svona lengi bæði til að undirbúa fundina og svo vera á fundunum. En ég skellti í mig 2 panodil og fór smá stund uppí rúm seinnipartinn og þá reddaðist þetta.
Hugsa að ég muni af og til taka 1-2 vægar - venjulegar - verkjatöflur meðan ég er alveg að ná mér. En það er mikill sigur að vera laus við morfínið og það allt.
Fyrir aðgerð lifði ég á Íbúfeni....og var stundum að taka 2falda hámarksskammta...hefði í raun átt að vera komin á morfínið þar sem hitt var ekki að virka....var aldrei verkjalus...og svo var maginn kominn í klessu líka.
En núna er markmiðið að þurfa ENGIN verkjalyf nema ef ég slysast til að fá mjög slæman hausverk sem Tang Kuei virkar ekki á (náttúruverkja töflur frá HBL) Ég er sem sagt að stefna að því að vera CLEAN ;-) Hljómar eins og ég hafi verið í dópi...hehehe En öll þessi lyf eru örugglega ekki mikið skárri svo sem.
Skurðirnir eða réttara sagt örin líta ágætlega út....nema að þetta litla er að pirra mig, það hefur gróið of strekkt saman og ef ég teygi úr mér eða ligg á maganum þá kemur mikið tog á það og mér finnst það vera að rifna ! Ég er búin að vera dugleg að bera á þau góð krem og SÞ sagði mér að vera dugleg að teygja það til og nudda, reyna að losa það aðeins upp. Nú ef það virkar ekki og þetta ætlar að halda áfram svona, þá þarf ég bara að tala við lækninn og athuga hvort það sé eitthvað hægt að skera í það og laga það aðeins. Sjáum til....
En annars er bara að halda áfram að láta sér batna og láta tímann líða hratt.....
Best að fara og fá sér einn ískaldann og gómsætan prótein sjeik ;-) og fara svo inní rúm og liggja á maganum smá stund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 16:21
Komnar 5 vikur í dag - 3 vikur eftir !
Jæja það er alltaf ánægjulegt þegar lítið er bloggað í svona "veikinda-bloggum" það þýðir að allt er á góðri leið og maður er orðinn svo bissý að það er ekki tími til að blogga :-)
En það er helling búið að gerast síðan síðast....það var bara eins og allt í einu hefði verið ýtt á ON-takkann á mér. Styrkurinn og þrekið var að koma síðast þegar ég skrifaði og þar hef ég bara bætt mig að mestu. Að vísu er ég mjög þreytt og þreklaus í dag...má greinilega ekki við neinu þegar blóðgildin eru annars vegar, þannig að "Rósa frænka" er ekki velkomin aftur í bili !
Síðustu 2 tímar í sjúkrþjálfun gengu mjög vel, ég gat gert svo miklu meira en ég bjóst við og hvað þá hún Karin (sjúkraþjálfarinn minn), hún var búin að vera mjög áhyggjufull eftir fyrsta tímann út af kreppunni í mjöðminni en sá að það er algjörlega óþarfi núna.
Ég get gert hreyfingar núna sem ég gat ómögulega gert fyrir aðgerð...og það er besta tilfinning í heimi. Núna er ég að hlakka til að fara í göngutúra og er bara farið að langa til að ganga á fjöll og svona...af því að bráðum get ég það. Ég veit að það er ekki hægt að ætlast til að fólk viti hvað það er mikils virði nema að það hafi sjálft verið í svipaðri aðstöðu. En bara það að geta lyft fætinum upp...og finna ekki verki er bara ótrúlegt.
Ég á mun auðveldara með allar hreyfingar og að velta mér til í rúminu, sef eiginlega orðið bara á hliðinni og finn mjög lítið fyrir því þegar ég sný mér aftur á bakið.
Ég er líka orðin eiginlega alveg sjálfbjarga...fór meira að segja ein í sturtu áðan, hingað til hefur Malli alltaf þurft að lyfta fætinum yfir baðkarsbrúnina, en nú gat ég sjálf. Sama er með pottinn, kemst ofaní og uppúr sjálf.
Ég er farin að geta tekið aðeins þátt í eldamennskunni og að setja pínu í uppþvöttavél....en það getur verið svoldið þreytandi að standa á öðrum fæti lengi, þannig að ég reyni að láta það vera eins og ég get.
En kannski stærsta atriðið er að ég held ég sé að ná að losa mig við morínið !!!! Núna eru komnir rúmir 2 sólarhringar síðan ég hef tekið töflu og mér líður bara þokkalega. Eina sem er kannski að bögga mig eru fráhvarfseinkenni....... Ég hef fundið fyrir n.k. hausverk eða svona verk á bak við augun þegar ég hef gleymt töflunum og eins núna þegar er svona langt liðið, og líka kuldahroll og óþægindi við ljós. Ég gat græjað Eyrúnu í skólann í morgun en eftir það tók ég panodil og fór og lagði mig...með svartan bol yfir augunum, þarf að fá mér svona eins og í flugvélunum.
Eina sem er að há mér núna er að þurfa að druslast með þessar hækjur....finnst ég gæti hæglega gengið, finn bara hvað ég er orðin góð. En ég mun að sjálfsögðu hlýða og ætla að fara að panta tíma hjá lækninum fljótlega....hélt nú kannski að hann myndi eitthvað tékka á mér (þessi sem sendi mig út í aðgerðina) en nei...hef ekkert heyrt frá honum.
Till next time....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2009 | 13:04
Helmingurinn búinn !!!
Jibbííí í dag eru 4 vikur liðnar frá aðgerð sem þýðir að ég er hálfnuð !!! Eftir tæpar 4 vikur í viðbót fer ég í röntgen og þá fæ ég (vonandi) að öllum líkindum grænt ljós á að fara að sleppa hækjunum. Að vísum mun það ekki gerst bara 1,2 og 3, það tekur víst einhvern tíma að venja sig af þeim og læra að ganga almennilega aftur. Og fyrst um sinn eiga hækjurnar að vera til taks þegar þreyta gerir vart við sig. En ég hef nú víst áður lært að ganga uppá nýtt þannig að ég verð nú ekki lengi að ná mér núna ! :-)
Annars finnst mér þetta allt vera að gerast núna....LOKSINS !!! Ég finn að styrkurinn er allur að koma í fótinn. Ég á orðið auðveldara með að gera æfingarnar mínar og meira að segja er farin að geta legið lengur alveg flöt og rétt úr mjöðminni.
Í gær þegar ég var að gera æfingarnar sátu Áslaug og Rebekka hjá mér...alltí einu sögðu þær: Mamma þú getur gert miklu meira en fyrir aðgerðina ! Og það er rétt, sumar hreyfingar get ég orðið gert betur og auðveldar en áður en ég fór í aðgerðina. Auðvitað finn ég ekki eins mikið til núna þer sem ég er vel dópuð, en ég finn að hreyfigetan er mun meiri. Ég get t.d. lyft fætinum hærra núna þegar ég stend og geri hnélyftu. Að vísu næ ég ekki að gera nema 5-6 en það kemur.
Varðandi lyfin, þá væri ég mjög mikið til í að geta minnkað þau og helst hætt sem fyrst.... Mér hefur svo sem aldrei líkað að þurfa að taka inn eitthvað eitur, og þetta er nú frekar strekt stuff... Sumir segjast sjá á mér...að ég sé uppdópuð..hehe En ég er að verða brjáluð í húðinni, öll í litlum einhverskonar bólum og með pirring. Það mun væntanlega taka langan tíma að ná að hreinsa þetta lyfjasull út þegar ég hætti á þeim.
Er alveg búin að testa það að taka þau ekki....óvart að vísu. Tvö kvöld í röð gleymdi ég kvöldskammtinum mínum og vaknaði um 5 leitið ansi aum og stirð, tók þá morgunskammtinn en var léleg það sem eftir var dagsins eiginlega. Þannig að það er eiginlega ekki að borga sig að sleppa þeim, þá er ég bara drusluleg eða hef jafnvel þurft að taka auka töflu sem er ekki gott. En þetta kemur bráðum..... :-)
Annað jákvætt... Ég á orðið mun auðveldara með að liggja á hliðinni (þeirri góðu, þori ekki á hina ennþá), og núna sný ég mér bara sjálf auðveldlega yfir á hliðina á nóttinni og til baka. Að vísu getur verið svoldið vont að fara til baka á bakið, þá er eins og allt þurfi að færast til baka...í skorður. En þetta er þvílíkur léttir !!!
Ég finn líka að þrekið er að koma til baka í smá skömmtum allavega, er búin að auka við mig Herbalife-ið, sem sagt passa að ég sé nú að ná að taka allar töflurnar 3x á dag og reyni að taka a.m.k. 2 sjeika. Svo hjálpar líka til að vera komin aftur á járntöflurnar/drykkinn.
En þegar maður er orðinn svona góður þá er bara eitt vandamál.......... MÉR LEIÐIST !!! Það var einhvern veginn auðvedara að liggja bara í rúminu eða lazy boy stólnum þegar ég var slöpp og aum.... En núna þegar ég er að hressast þá er mig farið að klæja í puttana að gera allt !!
En..ekki hafa áhyggjur...ég ÆTLA AÐ PASSA MIG !! Því ég veit að ef ég fer að gera einhverja vitleysu þarf ég bara að stíga eitt skref aftur á bak...og ég vil það ekki, vil frekar halda mig á réttu róli í batanum. Ég veit alveg að ég er svona góð þegar ég held mig innan réttra marka.
Fer í sjúkraþjálfun á morgun og það verður gaman að sjá hvað ég get...og hvort ég verði nokkuð eins brjálæðislega þreytt eins og síðast.
Ætla að skella inn myndum fljótlega af skurðunum.. Tók mynd af litla í síðustu viku (3 vikur) og þessum stóra í gær (4 vikur), þegar Malli var að skipta á umbúðunum. Þeir líta nokkuð vel út en það er ótrúlega skondið að sjá þennan gamla við hliðna á þessum nýja. Þessi gamli er svo ótrúlega ljótur !! Kannski ég láti laga þetta allt við tækifæri.....
En nú er bara að halda áfram að "hafa það gott" og telja niður... (kannski eins gott að vera bara á sljófgandi lyfjum þá er maður rólegri...hehehe)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2009 | 13:08
Það sem mér dettur í hug....
Ég veit varla hvort ég eigi að segja frá því sem ég gerði í gær............
En allavega, Lína systir hringdi og sagðist vera að fara í IKEA og svo kannski til ömmu....og þar sem mér er farið að leiðast SVOLDIÐ einveran og inniveran ákvað ég að skella mér með. Ég veti...ekki það gáfulegasta sem hægt er að gera þegar maður er á hækjum, þróttlaus og með svima.
Þetta gékk ágætleag í fyrstu, svoldið trikk að fara upp rúllustigann...hehehe... En svo var mér farið að verða ansi heitt, sveitt og þreytt í höndunum. Mjöðmin var svo sem ágæt í ferðinni....en eftir að ég kom heim....úffff ! En ég lærði það allavega að maður fer ekki langar vegalengdir á hækjum. (Ég veit ekki hvernig ég fékk þessa hugmynd, þar sem ég átti erfitt með að labba IKEA áður en ég fór í aðgerðina !!)
En annars var Adda tengdamamma svo indisleg að bjóða sig fram í heimilisaðstoð. Henni blöskraði þessi úrskurður hjá félagsmálabatteríinu hér í Hafnarfirði að neita mér um aðstoð, þannig að hún ætlar að koma (keyra alla leið frá Akranesi) einu sinni í viku og moka út hérna. Hún kom hérna í gær og eldaði fyrir okkur og þreif allt hátt og lágt !! Takk elsku Adda mín, þetta er bara ómetanlegt !!!
En ég verð nú að segja að mér finnst ég hálf óþörf.... Hún var á fullu að þrífa og Malli að sýsla í eldhúsinu...ég vappaði fyrst eitthvað um á hækjunum...en svo gafst ég upp og settist bara niður, sá að það var ekkert gagn í mér.
Annars fékk ég símtal frá sjúkraþjálfaranum mínum í gær. Hún var að ráðfæra sig við annan sem hefur verið með sjúklinga sem voru að koma úr þessari aðgerð. Hún hefur miklar áhyggjur af því hvað mjöðmin er orðin kreppt (hvernig sem það er skrifað). En ég á svo erfitt með að rétta alveg úr henni. Fyrsta planið okkar var að ég kæmi bara 1x í viku en nú vill hún fá mig 2x í viku til að byrja með...
Ég veit að þetta verður hörkupúl en það verður þess virði þegar upp er staðið, ég er tilbúin að gera allt til þess að fá sem bestan bata úr þessari aðgerð og ég er að gefa mér a.m.k. 6 mánuði i þetta ferli allt saman. Ég var orðin kreppt fyrir en sé núna leið til þess að snúa því til baka líka.
Ég geri ráð fyrir því að vera orðin Super góð eftir ár frá aðgerð. Og þá geri ég ráð fyrir að ÉG verði komin til baka eftir 4 ára fjarveru.... Í maí 2006 lenti ég í bílslysi sem tók 2 ár að vinna úr...þegar ég var að verða góð af því þá var mjöðmin orðin slæm og nú geri ég ráð fyrir því að í maí 2010 verði ég algjörlega búin að vinna mig út úr þessu öllu !
Og þá stendur ekkert í vegi mínum fyrir að ná öllum mínum markmiðum og draumum !! :-D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2009 | 12:48
Blóðprufur og sjúkraþjálfun
Jæja ég fékk niðurstöðurnar úr blóðprufunum í gær.... Það var allt í mjög góðu standi fyrir utan blóðgildin og járn. Honum fannst nú bráðfyndið hvað ég er með lágt kólesteról...hehehe 1 komma eitthvað sem telst vera frábært !
En ég er ennþá alltof lág í blóði, síðast þegar ég var mæld, fyrir 2 árum var ég 136 í hmóglóbini en ég var 107 núna, lágmarkið er um 120. Sama var með járnið, það var alltof lágt. Þannig að það er ekki skrýtið að ég sé þróttlaus, svimi af og til, alltaf með hausverk og ómótt ef ég geri eitthvað.
Nú er markmiðið að borða fullt af kjöti (sem er ekkert endilega í uppáhaldi hjá mér) og grænt grænmeti helst í öll mál. Ummm....köld nautalund með spínatsósu í morgunmat....hljómar þetta ekki vel ? hehehe
En læknirinn setti mig aftur á járntöflur og svo á ég "ægilega góðan" járndrykk sem ég þarf að vera duglegri að drekka.
En ég fór líka í sjúkraþjálfun í gær....úfff það var með því erfiðara sem ég hef gert síðan ég kom úr aðgerðinni. Hún þurfti auðvitað að mæla hvað ég gat beygt og teygt og lyft mikið.... Og svo gerði ég æfingarnar mínar og hún passaði uppá að þær væru vel gerðar ! Erfiðast var að liggja flöt, síðasta árið allavega hef ég átt erfitt með að rétta vel úr mjöðminni, hef alltaf verið með kodda undir hnésbótinni ef ég ligg á bakinu. Þetta hefur ekki skánað núna eftir aðgerðina og ég á bara mjög erfitt með að liggja flöt, með hnén niður í dýnuna án þess að fara að fetta bakið.
Hún hafði miklar áhyggjur af þessu og úr varð að ég á að liggja svona í 30 sekúndur í einu, hvíla og gera aftur....nokkrum sinnum í röð og nokkrum sinnum á dag.
Alveg með ólíkindum hvað svona litlar æfingar geta verið erfiðar, ég var í mjög góðri þjálfun og æfði stíft áður en ég fór í aðgerðina, en í gær var ég bara kófsveitt við að lyfta upp hnénu og rétta úr mér !!! Ég var svo þreytt eftir þetta að ég fór beina leið í rúmið þegar heim kom og svaf í 2 tíma.
En í morgun vaknaði ég og leið nokkuð vel, enda stutt síðan ég tók morfínið mitt...og þá gat ég gert æfingarnar vel og vandlega...nokkuð ánægð með það. :-D
En já með lyfin, ég hafði hugsað mér að byrja að minnka þau, en eftir að hafa prufað að sleppa kvöldtöflunni sá ég að það er ekki alveg kominn tími á það ennþá, vaknaði svo stirð og stíf að ég átti erfitt með að komast framúr. Þannig að ég held áfram að taka morfín forðatöflur 2x á dag. Hef samt lítið verið að taka Nobliganið með, sem eru mjög sterkar verkjatöflur sem ég á að taka ef ég er mjög slæm, þær slá vel á verkina.
Ég fékk neitun um heimilisaðstoð.....þar sem það búa fullorðnir á heimilinu sem eiga að geta séð um þrif..... Hmm...Malli verður þá bara að gera þetta á nóttinni. Hann er að vinna til að verða 7, fer í búð, eldar kvöldmat, gengur frá, kemur Eyrúnu í rúmið....og þá er klukkan yfirleitt að verða svefntími fyrir hann, þar sem hann vaknar kl. 6 á morgnana. Ég ætla nú að hringja í dag og spyrja hvort það sá verið að meina að stelpurnar eigi kannski að gera þetta.... Ef svo er þá er ég viss um að sá sem tók þá ákvörðun á EKKI unglinga !!!! Að fá ungilnga til að þrífa er eins og að reyna að kenna fíl að fljúga !
Niðurstaðan eftir gærdaginn er að ég er ekki alveg komin eins langt og ég hélt í batanum, enda bara rúmar 3 vikur síðan aðgerðin var. Þannig að ég þarf að taka á þolinmæðinni og halda bara áfram að "liggja í leti" i draslinu í kringum mig....og taka bara til í haust !!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2009 | 12:38
Elsku besta mamma mín...
hvar væri ég án hennar !!!! Hún kom hér í gær og þreif fyrir mig...og stelpurnar voru nú svo duglegar að hjálpa (svo lengi sem ég "stóð" yfir þeim !!), svo bauð hún okkur í mat til sín.
Í morgun kom hún svo og hjálpaði Eyrúnu af stað í skólann ásamt því að setja í uppþvottavél, þvottavél, þurkarann og brjóta saman !
Annars er ég búin að vera eitthvað "asnaleg" (já meira en vanalega...hehe) í gær og nótt....smá svimi, þreyta og í nótt var ég voðalega slæm í kálfanum sem leiddi uppí mjöðm....og er enn þrátt fyrir auka verkjalyf. Veit nú ekki hvaða vesen er á kálfanum á mér, en ég verð að hafa fótinn uppi annars verður hann ljótur á litinn...læt nú athuga þetta ef þetta heldur áfram.
Sviminn getur nú stafað af því að ég gleymi svoldið að borða yfir daginn, ég er þannig að ef ég er ekki í einhverju ati þá verð ég bara ekkert svöng...og þegar maður situr bara svona á rassinum allan daginn og allar athafnir eru heilmikið mál...þá einhvern veginn er bara auðveldara sleppa því :-S En ég bæti úr því hér eftir.
Svo fæ ég væntanlega út úr blóðprufunum á morgun og á líka tíma hjá sjúkraþjálfaranum á morgun. Ég hef verið að ná að gera æfingarnar nokkuð reglulega síðustu daga, en ekki 3x á dag ennþá. Hlakka til að hitta hana og sjá hvernig staðan á mér er.
En annars er bara að halda áfram að vera þolinmóð og passa uppá að fá næga hvíld, passa að hafa pirringinn í lágmarki (verð stundum pínu lítið pirruð á því að vera svona "heft") og hlakka til að komast á ról aftur. Það eru sem sagt 3 vikur í dag síðan aðgerðin var og þá 5 vikur eftir á hækjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)