3 mánuðir frá aðgerð

Það er alltaf jafn magnað að horfa til baka...  Ég mundi það bara áðan að það eru ca. 3 mánuðir frá því að ég fór í aðgerðina.  Aðgerð nr. 4 á mjöðminni en gervliður nr. 2 á 4 árum.  Mér finnst frekar eins og það séu 3 ár frá því þetta var !!  
Það er óhætt að segja að þetta sé búið að ganga algjörlega vonum farmar, læknirinn var mjög hissa á batanum í 6 vikna skoðuninni.  Og þegar ég hugsa um það þá kom ég sjálfri mér líka á óvart með þennan skjóta bata.

Smá puntkar

- Var vakandi alla aðgerðina, of forvitin til að láta svæfa mig..hehe

- Fór heim eftir ca. 48 tíma frá því að ég lagðist á skurðarborðið - venjulegur legutími er um 4 dagar ef vel gengur

- Notaði verkjalyf í tæpa viku eftir aðgerð

- Var komin í ræktina 2 vikum eftir aðgerð, þar sem ég hjólaði, gerði mini hnébeygjur, magaæfingar, fótaæfingar,lyfti fyrir efri hlutann ofl. - Normið...fólk fer í sjúkraþjálfun ca. 6-8 vikum eftir aðgerð

- 4 vikum eftir aðgerð var ég komin á bara 1 hækju og staulaðist án þeirra hér heima - normið er 6-10 vikur

- 6 vikum eftir aðgerð skokkaði ég um á háum hælum og það var varla að sjá að ég hafði verið í aðgerð þar sem ég haltraði ekki einu sinni - normið er uppí 6 MÁNUÐI !!!

- í dag 3 mánuðum eftir aðgerð æfi ég 3-5x í viku og er eiginlega búin að gleyma því að þetta hafi gerst :-)

Vá...ég verð eiginlega að játa það að ég er frekar stolt af árangrinum !

Og hverju get ég þakkað þennan ótrúlega skjóta árangur ? Ég held ég geti fullyrt að góð næring, líkamlegur undirbúningur og HUGARFARIÐ sé það sem hafi klárlega gert útslagið. Ég hef nýtt Herbalife næringarvörurnar sem part af minni næringu í rúm 16 ár, en ég hef líka passað að allt annað sem ég set ofaní mig sé hollt, mikið af grænum sjeikum, passað uppá góðu fituna og lítið af einföldum kolvetnum.  

En það sem Herbalife hefur gefið mér umfram góðar næringarvörur er að læra á HUGARFARIÐ. Læra inná sjálfa mig, læra að tækla hindranir og sjá verðmætin og lærdóminn sem er fólginn í þeim, læra að fara á eftir markmiðum, læra að sjá litlu sigrana þegar ekkert virðist vera að gerast, læra að horfa fram á við þegar skrefin fara aftur á bak, læra að horfa á mig sem sigurvegara, læra að halda ótrauð áfram þó hægt fari...og svo ótal margt í viðbót.  

Þrátt fyrir að það hafi verið mikið áfall þegar ég frétti að ég þyrfti að fara aftur í aðgerð, eitthvað sem ég hélt að ég yrði laus við næstu 15 árin, en í dag er ég mjög þakklát fyrir að hafa farið í gegnum þetta.  Þetta er búið að kenna mér margt og hrista upp í mér.  Margt sem ég hafði lofað mér að gera þegar ég var búin með síðustu aðgerð, sem ég gerði ekki...  Ég er núna að taka til í lífinu mínu til þess að ég geti notið þess til fulls, ég er að skoða draumana mína og hvað mig langar til að gera og skoða hvernig ég get látið draumana verða að veruleika...  Í stað þess að ætla að gera það seinna...hvenær kemur þetta seinna ??  Kannski kemur það bara ekki neitt !

Njótum lífsins og fylgjum hjartanu elsku vinir kiss og muniði að við getum allt sem við ætlum okkur.

Linkur á myndir 
http://mas.blog.is/album/


Á byrjunarreit...einu sinni enn... So what !

Verð að segja að það er óneytanlega þreytandi tilhugsun um að "byrja aftur uppá nýtt" einu sinni enn, koma sér af á lappir og af stað í öllu sem var í gangi fyrir aðgerð...og koma sér aftur í form !!  En það er lífstíðarverkefni að vera í góðum lífsstíl, borða hollt, hreyfa sig og halda góðri heilsu og má aldrei gefast upp.


Ég var komin í ja..líklega mitt besta form hingað til, í byrjun ársins þegar skjaldkirtillinn krassaði algjörlega, náði samt að halda mér á nokkuð góðu róli framan af.  Þetta var samt hrikalega erfiður tími meðan var verið að koma lyfjunum í rétt horf aftur og margir dagar/vikur þar sem eina afrekið mitt þann daginn var að stíga fram úr rúminu (sem var stundum svo sárt þar sem iljarnar voru svo bólgnar), klæða mig og leggjast í sófann.  Æ frekar svartur tími !
En loksins í lok júlí fór orkan að komast í jafnvægi og í stað algjörlega ónýtra daga voru það bara klukkustundir þar sem var bara slökkt á mér og mér nægði að hvíla mig.  Þvílík lífsgæði að fá orkuna sína aftur !!

En...þegar skjaldkirtillinn var loksins hættur að trufla lífið þá var mjöðmin með vesen...þannig að þá fór hreyfingin út um þúfur, allt járna ruslið í mjöðminni fór að ískra og var stöðugt að smella og klikka til.  Þannig að þá var nú betra að fara varlega meðan var verið að finna út hvað ætti að gera.

Og þá erum við komin að deginum í dag.  Í dag eru 4 vikur frá aðgerð og nú er komið gott af leti og nenn´ekki...  Kominn tími til að taka til í lífsstílnum aftur, bústa upp próteinið, út með ljótu kolvetnin og inn með ræktina reglulega !


Það er alveg magnað að sjá og finna fyrir hvað 4 vikur í svo til engri hreyfingu geta gert manni...hvað þá heil mannsævi af hreyfingarleysi !!  Ég ætla ekki að vera þar !! 
Mér finnst ég vera eins og grjónapúði...grútlin og alskonar í laginu :-/  Engin vöðvamótun að ráði lengur, lærin fletjast út þegar ég sest, ýmislegt sem dinglar til hér og þar á líkamanum sem gerði það ekki áður...  

En útlitið er engan veginn það sem ég er með hugann við, það sem er verst við það að vera ekki í reglulegri hreyfingu er líðanin í líkamanum.  Mér er gjörsamlega illt allstaðar !!  Hnakkanum og hálsinum, herðunum, handleggjunum, úlnliðunum, lófunum, fingrunum, öllu bakinu, sérstaklega milli herðablaðana og mjóbakinu, fótunum...  Mér líður best í mjöðminni og svæðinu þar í kring, sem ætti að vera að valda mér mestum óþægindum. Þar sem fótleggurinn var aðeins lengdur þá er búið að strekkja vel á öllum vöðvunum í lærinu, og svo var auðvitað skorið í gegnum vöðvana yfir mjöðminni og stóra rassvöðvann, þannig að þeir eru núna að hamast við að herða sig og finna sig uppá nýtt...og getur verið svoldið erfitt að fá þá til að hlusta og gera eins og ég segi, þarf alveg að einbeita mér sérstaklega vel til að fá rassvöðvann til að kreppast...  En þó að þetta sé allt sárt og óþægilegt þá er það EKKERT miðað við vanlíðanina útaf hreyfingarleysi.

Hvernig getur stór hluti fólks farið í gegnum lífið án þess að hreyfa sig ??  
Ég er ekkert endilega að tala um brjálaða stera-bolta-rækt eða endalaus hlaup um allar götur...  Bara létta hreyfingu til að koma hálf stöðnuðu blóði af stað, styrkja vöðva sem fá aldrei að láta til sín taka og muna varla lengur hvaða hlutverki þeir gegna, teygja á vöðvum sem fá aldrei að slaka á og eru í stöðgri vinnu útaf brenglun í líkamsstöðu og stoðkerfinu.  Og svo bara leyfa líkamanum að afstressast með því að slaka á og anda...já ótrúlega margir sem bara anda ekki allt sitt líf !
Það er hægt að stunda fullkomna hreyfingu bara heima hjá sér og einu "tækin" sem maður þarf er bara maður sjálfur.

Svo dettur fólki í hug að kvarta undan verkjum og vandamálum en gerir svo kannski ekkert af þessum einföldu hlutum, sem kosta ekkert til að hjálpa sér.  Ég veit að það er mjög auðvelt að "detta" í þann pytt að maður geti ekki hreyft sig af því að maður er svo slæmur hér og þar. Been there-done that !

Ég má hreyfa mig upp að sársaukamörkum...en það er mjög auðvelt að testa bara ekkert hvar þessi mörk eru, með því að vera ekkert að prufa að hreyfa sig, heldur bara halda í þá hugmynd að öll hreyfing sé óþægileg og segja sjálfum sér að það borgi sig nú ekki að hreyfa sig, maður gæti nú mögulega farið yfir strikið....

Ég þekki svo ótal marga sem eru að "drepast" í bakinu, eða alltaf illt í herðunum og hálsinum og þar af leiðandi geta þeir "bara ekkert" hreyft sig.  
Ég get alveg lyft lóðum með höndunum...það er ekkert að höndunum á mér.  Ég get lagst á gólfið og gert magaæfingar og bakæfingar...ekkert að mér þar, svo lengi sem ég passa mig á hvernig ég legst niður og stend upp, gæti meira að segja gert magaæfingar sitjandi.  Og þó að ég sé með auma mjöðm get ég samt alveg hjólað létt, gert hnébeygjur, rassæfingar, læraæfingar ofl.

Að mínu mati þarf góð hreyfing að innihalda nokkra þætti: þolþjálfun, styrktarþjálfun, liðleikaþjálfun, slökun og öndun.  Þannig að ef þú ert t.d. sá/sú sem ferð í göngutúr og tekur það sem hreyfinguna þína. Prufaðu að ganga aðeins hraðar af og til, og fara í brekku til að láta hjartað pumpa aðeins öðruvísi en vanalega, gerðu nokkrar hnébeygjur þegar þú kemur aftur heim, nokkrar armbeygjur, þess vegna upp við vegginn.  Gríptu 2 mjólkurfernur eða settu vatn í 2 flöskur og lyftu þeim upp fyrir höfuð eða beygðu og réttu handleginn og æfðu byssurnar...  Teygðu svo úr þér, beygðu þig niður í gólf, hreyfðu axlirnar í hringi, teygðu á hálsinum, fótunum..andaðu djúpt ofaní kviðinn á meðan og hugsaðu jákvæðar hugsanir, þú getur t.d. hrósað þér fyrir að hafa tekið þetta nýja skref í hreyfingu.

Ég veit það alveg af eigin raun að það ER erfitt að stíga út úr þægindunum og byrja að gera nýja hluti.  Óþekkir vöðvar sem eru ekki vanir að þurfa að gera neitt, láta alveg í sér heyra þegar þeir þurfa að fara að vinna þannig að maður getur alveg verið aumur á nýjum stöðum fyrst.  En það er bara eðlilegt og lagasta allt þegar maður heldur áfram. Bara hlusta á líkamann, taka eitt skref í einu og muna ÞÚ GETUR MEIRA EN ÞÚ HELDUR !

Ég held samt að hausinn á manni sé versti óvinurinn...þar er einhver rödd sem tekur alltof oft af manni völdin og segir manni alskonar vitleysu...t.d. að maður þurfi nú ekki að hreyfa sig í dag eða geti bara byrjað í næstu viku... Ég missti af mánudeginum, á maður ekki alltaf að byrja á mánudegi..?  
Þess vegna er mikilvægt að vita af hverju maður vill breyta, t.d. setja inn hreyfingu.  Finna ástæðurnar ÞÍNAR og gramsa eftir tilfinningunum fyrir þessum ástæðum. Því fleiri og dýpri ástæður sem maður finnur, því ákveðnari verður maður og því minna heyrist í þessari rödd sem eyðileggur alltaf allt.  Og btw þetta á að sjálfsögðu við allt sem maður ætlar að breyta eða laga í lífinu.  Ástæður og tilfinningar !

Mín ástæða fyrir þessari áráttu í hreyfingu er t.d. sú að ég á bara einn líkama og ég er búin að finna fyrir því hvernig líf það er að hafa hann ekki í lagi.  Þegar ég var á hækjum í 18 mánuði þá voru svo margir hlutir sem ég gat ekki gert en voru settir á listann til að gera eftir að ég kæmist af hækjunum.  Það var þá sem ég setti hreyfinguna í forgang og fann leiðir til að æfa hér heima þegar mér hentaði.  Í langan tíma þá var það að skrölta upp stigann þar sem ræktin mín var, það sem gaf deginum gildi, ég gat dundað þar svo tímunum skipti.  Það var líka þá sem ég virkilega upplifði hvað það gerir líkamlegu- og ekki síður ANDLEGU heilsunni gott að stunda reglulega hreyfingu.  Ég man að sumir dagar voru erfiðir, þá efaðist ég um að ég ætti eftir að ná að labba aftur og ég sá fyrir mér að ég þyrfti alltaf að vera með hækjur...þegar þessar tilfinningar blossuðu upp var gott að geta sett "lagið mitt" í eyrun - ég á mér sérstakt lag sem kemur mér í rétt hugarfar - og séð fyrir mér hvernig ég væri orðin hækkjulaus, komin á fullt útí lífið aftur, glöð og hamingjusöm.  Og tilfinningarnar urðu stundum svo miklar að tárin láku...gleiðtár við að sjá þessa sýn og upplifa tilfinninguna sem fylgdi því að vera loksins komin útúr þessu ástandi.  En vá hvað mér leið alltaf vel eftir svona moment, og ég var ennþá sannfærðari um að þetta myndi allt ganga upp.  Sem það gerði að lokum, þó að það sé smá hraðahindrun í gangi núna ;-)

Ég hugsa líka til framtíðarinnar, í gegnum árin vann ég lengi á öldrunardeildum og lyflækningadeildum og þar sér maður svo vel hvernig líkaminn getur brugðist okkur ef við förum ekki vel með hann.  Ég á 4 dætur sem mig langar að eiga eins mörg ár með og ég mögulega get, og vonandi eignast slatta af barnabörnum og ef allar mínar óskir rætast fæ ég að sjá barna-barnabörn líka...verða langamma.  En það er eitt að vera á lífi og annað að lifa lífinu...ég ætla ekki að taka neina sénsa.  Mig langar að verða ofur hress langamma sem hlær, leikur og dansar við barna-barnabörnin sín.  Og til þess að það geti gerst þarf ég að fara vel með líkamann minn, svo hann endist til þess að láta þennan draum rætast þar sem fortíðin er mér ekki sérlega hliðholl og ég gæti auðveldlega verið komin í kör á efri árum.  Ég þarf að berjast á móti og toga þróunina í rétta átt !

Ein af mínum hugsunum þegar ég "lendi í einhverju" hefur alltaf verið "hvernig get ég lært eitthvað af þessu"?  Ég er t.d. búin að komast að því að ég er sterkari en ég hélt, búin að læra að þyggja hjálp, læra að slaka á og sleppa því sem ég þarf ekki á að halda og gagnast mér ekki í lífinu, læra á þolinmæðina og fleira og fleira.  
Í þessari umferð er ég búin að eiga ómetanlegan tíma í spjalli við dætur mínar og þær eru búnar að læra af viðhorfinu mínu og hvernig maður getur tæklað erfiðleika og hindranir.  Ómetanlegur tími ! Það er alltaf hægt að finna þakklæti og lærdóm í öllu sem "maður lendir í" :-)

En þegar ég hugsa um þakklæti er margt sem kemur upp í hugann, ekki veraldlegir hlutir, heldur fólkið í lífinu mínu.  Það er ekkert sem jafnast á við að eiga fjölskyldu og vini !  Og að fá að taka þátt með þeim í öllu DRAMANU sem lífið hefur uppá að bjóða, tækla þrautir, hughreysta þegar orusturnar tapast og fagna saman sigrunum...stórum og smáum... ÓMETANLEGT !

Þegar ég hugsa um það sem lífið getur skellt fyrir framan mann er ég svo óendanlega þakklát fyrir það að ég er bara að berjast við smá majðamavesen sem er einfalt að kippa í lag.  Eitthvað sem ég get svo auðveldlega lifað með og átt eðlilegt líf, þetta er meira bara svona smá truflun þegar ég horfi á aðra í kringum mig og barátturnar sem þeir eru að eiga. Og það er þetta fólk sem veitir mér innblástur og hvatningu í að halda áfram og tækla mínar liltu holur í vegninum. 

Ég vona að þeir sem nenntu að lesa þetta í gegn hafi fengið smá innblástur og hvatningu í að taka sitt næsta skref í að hugsa um líkamlegu- og andlegu heilsuna, finna lærdóminn í erfiðleikunum og muna eftir öllu því sem við getum verið þakklát fyrir.
-Ást og friður-


Síðustu vikur

Þá er loksins að detta í 4 vikur frá aðgerð...rosalega finnst mér tíminn líða hægt núna síðustu vikurnar.  Það er frábært að hressast og svona en í leiðinni þá leiðist manni mun meira. 

Ég hef svoldið verið að staulast á einni hækju og jafnvel án þeirra hér heima...fer svoldið eftir því hvernig ég er þann daginn.  Stundum er ég rosa góð og stundum er eins og ég hafi farið mörg skref afturábak.  

Ég fór í ræktina þegar ég var búin með 2 vikur...mikið var það gott !  Var orðin svo stíf og stirð og leið eiginlega orðið illa af hvíld.  Það tók alveg á fyrst en sá sársauki var miklu betri sársauki en að gera ekki neitt.  Hef samt ekki verið mjög dugleg...farið einhver 3-4 skipti á 2 vikum...  En það er allavega byrjunin.

Nárinn hefur verið svoldið að stríða mér.  Ég finn stundum svo til við minnstu hreyfingu á fætinum sem gerir erfitt að labba eða bara mjaka sér til í sófanum.  Ég hef grun um að ég hafi tognað...var eitthvað að hreyfa mig til í sófanum fljótlega eftir aðgerðina, ýtti með hælnum í og eitthvað small í náranum og síðan þá hefur hann ekki verið til friðs.  Ætla að sjá til hvort hann lagist ekki með tímanum...annars verð ég að tékka á sjúkraþjálfun.  Líklega hefur þetta "verið gert" til þess að ég tæki því aðeins rólegra...því ef þetta náravesen væri ekki væri ég örugglega búin að vera að skottast meira á einni eða engri hækju.

Ég er samt mest illa haldin af leiða...  Langar ekki orðið að gera neitt, ekki horfa, ekki hlusta, ekki neitt...  Samt er svo fullt af hlutum sem mig hefur alltaf vantað tíma til að gera en nei..nenni ekki.  Held þetta sé bara hálfgert þunglyndi sem á eftir að fara þegar ég get farið að taka meira þátt í lífinu aftur.

Ég skrapp nú í vinnuna samt í síðustu viku, það var rosalega gott að komast aðeins og hitta alla, en ég var bara svo þreytt þann daginn að ég naut þess ekki alveg. En ég ætla að halda áfram að fara allavega 2 tíma á miðvikudögum, held það sé besta lækningin sem til er að vera innan um þessa æðislegu og jákvæðu vinnufélaga sem ég er svo heppin að hafa  :-)

 

 


Nú er að leita réttar síns

Ég er ákveðin í þvi að ég ætla að kanna hver réttur minn er, það er ekkert eðlilegt við að fá gerfilið sem þarf að taka 4 árum seinna.  Svona liðir eiga að endast í 10-15 ár og þessi átti nú að vera sérstaklega sterkur þar sem hann var jú þessi fína titanium blanda sem ekkert átti að geta grandað.

Og þetta er ekki bara að skerða lífsgæðin mín núna heldur um ókomna tíð.  Það er ekkert endalaust hægt að skipta um lið og þeir endast alltaf styttra eftir því sem er búið að setja oftar. 

Fyrst og fremst ætla ég að skoða hvaða ábyrgð framleiðandinn hefur.  Það er mikið af málaferlum í gangi um allan heim út af málmliðum sem voru gallaðir og framleiðendur eru skaðabótaskyldir.  Ég hafði samband við lögfræðing sem sá um mín mál eftir bílslysið en því miður hefur hann ekki rétt til þess að sækja mál í USA.  En hann var hins vegar mjög heitur yfir því hvernig er búið að standa að þessu öllu saman og vill skoða hvort að farið hafi verið eftir öllum verkferlum þegar kemur að þessum gölluðu liðum.

Ég er búin að lesa margar skýrslur og rannsóknir, þar á meðal bréf frá framleiðendum þessara liða til skurðlækna um hvernig eigi að hátta eftirfylgni sjúklinga og hvað eigi að gera ef einhver einkenni séu til staðar.  Í fyrsta lagi á að hafa sambandi við alla sjúklinga og athuga hvort einhver einkenni séu til staðar. Ég hef ekki heyrt í neinum síðan liðurinn var settur í...

Ég vildi fá að vita hvaða ferli er í gangi hér þannig að ég hringdi í landlækni, þar var mér bent á að hafa samband við lyfjastofnun þar sem þeir eru innflytjendur.  Talaði þar við frábæran mann sem var mjög hjálplegur, sagði að þetta ferli ætti að vera sent beint frá framleiðanda til skurðlækna.  Hann benti mér líka á bráðabirgðaskýrslu á úttekt Evrópusambandsins á þessum liðum og fleira sniðugt.  Í þessari skýrslu kemur einmitt skýrt fram hvað á að gera ef fólk er með hækkuð gildi á krómi og kóbalti.  Ekkert af þessu hefur átt sér stað í mínu tilfelli.

Merkilegt hvernig hlutirnir gerast svo stundum...  

Þegar ég var að fylgjast með Reykjavíkurmarþoninu í ágúst síðastliðinn pikkaði maður í mig til að biðja mig að þýða það sem var verið að tilkynna í hátalarakerfinu.  Þarna kom sér mjög vel að vera svona illa haldin af "fólks-forvitni" eins og ég er...er með endalausan áhuga á að kynnast nýju fólki.  Eftir að hafa þýtt fyrir hann vildi ég að sjálfsögðu vita hvaðan hann væri og hvað hann væri að gera hér og svona.  Til að gera langa sögu stutta...þá vildi hann vita hvort ég hefði verið að hlaupa og afhverju ekki...þannig að þá var mjöðmin komin inní umræðuna.  Í ljós kom að hann er fasteignalögfræðingur í Florida og vildi endilega aðstoða mig að komast í samband við lögfræðing sem gæti aðstoða mig við að athuga hvort ég eigi eitthvað á hendur framleiðanda mjaðmaliðsins.  Þannig að við erum komin með lögfræðing í USA sem sérhæfir sig í svona medical claim, sá maður var prófessor við skólann sem "nýji vinur minn" lærði við. Heppin ég... hehehe

En svo er bara að fá allar nauðsynlegar upplýsingar...nú þarf að komast í sjúkraskrána mína og finna út serial númarið á liðinum (spurning hvort ég þurfi að ráða handrukkara í það, hef heyrt að það sé ekkert grín á nálgast sína eigin sjúkraskrá).  Þegar ég var í innskriftinni ræddum við bæði við hjúkrunarfræðing og deildarlæknirinn um að það þyrfti að skoða og meta liðinn.  Deildarlæknirinn sagði að ég ætti þennan lið og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ég fengi hann bara.  Þannig að við settum það á blaðið.  

Þegar aðgerðinni lauk og var verið að færa mig yfir í rúmið spurði ég lækninn hvort að hann myndi meta liðinn eða hvernig þetta væri...þá galaði hann yfir skuðrstofuna "hvar er liðurinn"...  Rosa vel passað uppá þetta greinilega....

Í innskirftinni báðum við líka um að fá ljósmyndara á skurðstofuna (sjúkrahúsið er með fagljósmyndara sem er kallaður til þegar þarf) til að mynda ef eitthvað væri athugavert.  Það sem við vildum láta mynda eru vöðvarnir, en þegar vöðvarnir verða fyrir metlosis (málmeitrun) er eins og það sé búið að steikja þá... Þannig að við vildum hafa myndir af ástandinu til þess að hafa eitthvað í höndunum ef um það væri að ræða.  Sérstaklega þar sem ég hafði séð mikla rýrnun síðasta árið á þessu svæði.

Svarið sem við fengum frá lækninum "það kemur enginn inná skurðstofuna - PUNKTUR" !

Þannig að við höfum ekkert rosalega mikið í höndunum nema orð læknisins - sem btw finnst þetta allt hin mesta vitleysa og svo höfum við niðurstöður úr blóðprufum - sem heimilislæknirinn sendi mig í.  Nú er ég bara að bíða eftir niðurstöðum úr blóðprufunum sem ég fór svo í vikuna fyrir aðgerð.  Mun svo fara aftur líklega svona 3 mánuðum eftir aðgerð. 

Þetta er sem sagt stemmingin sem við erum í núna meðan ég er að ná mér...nánari fréttir af þessu eftir því sem líður á. 


Niðurstaðan úr aðgerðinni

Eins og ég hef sagt frá áður þá hefur skurðlæknirinn minn alveg gleymt að taka kúrs sem snýr að samskiptum...  Allt ferlið að reyna að fá að vita hvað ætti að gera - aðgerð eða ekki aðgerð.  

Þegar hann var að byrja aðgerðina spurði hann mig hvort ég væri jafnlöng...ég var nú ekki alveg að fatta hvað hann var að meina.  Þá var hann að meina hvort að fæturnir væru jafn langir.  Það gæti verið að svo yrði ekki eftir þess aðgerð.  Frábært !! Akkúrat það sem ég óttaðist mest, gott að fá að heyra þetta svona rétt áður en hann skellir hnífnum á mig....  Ég sagði að síðan ég var krakki hefur veiki fóturinn alltaf verið styttri með tilheyrandi veseni, en eftir síðustu aðgerð lagaði hann það fullkomlega.  Ég sagðist ekki búast við neinu öðru en fullkomnun í þetta sinn líka. (Aðeins að höfða til egosins í honum greinilega eina sem hann heyrir).

Daginn eftir aðgerðina kom hann til mín á deildina. Sagði að aðgerðin hefði gengið vel, allt hefði litið rosalega vel út, enga bólgu að sjá, engann vökva og liðurinn eins og nýr.  Ehh...frábært...  Ég spurði hann hvort að þetta hefði þá allt verið bara til einskis ??  Hann svaraði því nú ekkert...  

Ég spurði svo útí hvað hann meinti með að fóturinn gæti verið lengri...  Þá sagðist hann hafa þurft að setja stærri kúlu en var sem gæti orsakað það...og þar með var það útrætt. Og svo þegar hann var að fara sagði hann að nú ætti ég að vera góð nema ég myndi allt í einu fá keramik eitrun....  Þetta sagði hann með miklum hæðnistón og greinilegt að honum finnst ennþá að þetta með að ég gæti fengið króm og kóbalt eitrun og að ég sé með hækkun á þessum málmum í blóðinu sé allt byggt á eintómri kellinga móðursýki og einbettum vilja við að tileinka sér einkenni.

Seinni daginn æddi hann inná stofu til mín og eina sem hann sagði: "ert þú ekki farin heim" Ég sagðist vera að plana það jú um leið og ég fengi leyfi til þess.  Þá labbaði hann að mér og tók í hendina á mér og fór....  Ég náði að kalla á eftir honum hvort að við værum þá skilin að skiptum næstu 10 - 15 árin ?  Hann sagðist þá ætla að vera farinn...og fór að segja mér fá því hvað honum langaði að vinna í Kuweit.  Og áður en ég vissi af var hann búinn að upplýsa mig um lifnaðarhætti þar...  Jahérna.  Þetta gat hann talað um.  Og svo var hann bara farinn þegar hann var búinn að tala um sig og sína drauma.

Enn og aftur....ég er orðlaus yfir þessari framkomu !


3 skref áfram og 1 afturábak

 

Er það ekki þannig sem þetta virkar...?  

1 vika í dag frá aðgerð og ég er bara þokkalega góð myndi ég segja, verkir í algjöru lágmarki, enda er ég næstum hætt að taka verkjalyf.  Þarf samt að passa að fara ekki yfir strikið (finnst eins og ég hafi heyrt þetta nokkrum sinnum áður..) og eftir að hafa gert það í gær, ákvað ég að hafa fast inni 1-2 parkódín á dag og fara allavega einu sinni yfir daginn uppí rúm og hvíla mig smá.  Það er erfiðast að sytja, þó að það sé bara í lazy-boy prinesessu sætinu mínu, rúmið alltaf best.  En langur tími þar eins og heil nótt á bakinu getur alveg tekið á.  Vaknaði frekar verkjuð og með höfuðverk annan daginn í röð...held það sé bara af stífleika og lítlli hreyfingu.  Mikið væri ég til í góða rækt og góðar teygjur núna.  Er að velta því fyrir mér að fara inní rækt á morgun eða hinn og hjóla aðeins...bara til að koma blóðinu á hreyfingu.  Síðast var ég komin í ræktina 10 dögum eftir aðgerð.  

Er farin að taka járn til að bústa aðeins upp blóðið og orkuna, með svona aðgerð tapast alltaf eitthvað af blóði.  Fann fyrir því fyrstu dagana hér heima að eftir að ég borðaði fór mig að svima og þurfti að leggjast niður...giskaði á að blóðið færi allt í meltingarveginn og þetta væri þess vegna, því ég fann bara fyrir þessu þegar ég borða.  Grænu sjeikarnir eru allavega 2 á dag og svo 1 Rebuild Strength.  Er ekki með neina rosalega matarlyst, hef verið að leggja meiri áherslu á að vökva mig vel.

Styrkurinn er mjög góður, strax á 3-4 degi fannst mér hækjurnar vera farnar að þvælast fyrir mér...og ef ég mætti ráða myndi ég bara nota þær af og til...ef ég færi eitthvað eða væri þreytt.  Því þakka ég algjörlega því góða líkamlega formi sem ég var í fyrir aðgerðina og ekki síst næringunni sem hjálpaði mér að byggja og viðhalda vöðvamassanum.  Því svona 2-3 mánuðum fyrir aðgerð gat ég ekki æft eins mikið og ég hef verið að gera, en sjeikarnir sáu til þess að ég hef haldið vöðvamassanum mjög vel þrátt fyrir æfingaleysi.  En...ætli sé ekki best að leyfa allavega 2 vikum að líða áður en ég fer að skoða það eitthvað nánar að henda frá mér hækjunum.   
 
Mér líður stundum eins og honum Andy í Little Britain...hehehe Hér getið þið skoðað Andy https://www.youtube.com/watch?v=ZYIhH5fxMNI 

Spítaladvölin og herbergisfélaginn

Af fenginni reynslu veit ég að fyrsta nóttin er alltaf erfiðust...  En um leið og hún er búin fer allt að verða betra.  Þannig að nú var bara að þrauka.  Ég fór framúr með hjálp sjúkraþjálfara strax um kvöldið, reyndar stóð ég bara upp og steig aðeins í en mikið var það gott.  Var orðin agalega þreytt í bakinu að liggja svona.  Gerði líka nokkrar æfingar í rúminu og mátti fara að beygja fótinn og hreyfa hann meira sem var bara best í heimi !
Fékk reglulega stóra skammta af sýklalyfjum sem ég fann mun meira fyrir en í mjöðminni sjálfri...sveið upp hendina.  En annars leið mér mjög vel.
Fyrsta nóttin var bara nokkuð góð hvað varðar verki...  Ég svaf og dormaði svona í slumpum og fann lítið fyrir verkjum.  Það var aðalega bröltið í herbergisfélaga mínum sem hélt fyrir mér vöku.  Hversu oft er hægt að fara á klósettið á einni nóttu ??
 
Ég gerði mér fljótlega grein fyrir því að herbergisfélaginn minn var ekki alveg á sömu nótum og ég.  Yndisleg eldri kona sem hafði fengið blóðtappa og var frekar illa áttuð eftir það, en annars hress og jákvæð og alltaf syngjandi og brosandi.  Fyrst var ég ekki alveg að skilja hvers vegna hún lá inni á bæklunardeild ??  En svo komst ég að því að þessi deild var heila, tauga og bæklunardeild.  Mjög furðuleg blanda !  Hvers vegna að blanda saman fólki á þessum sviðum ?  Að mínu mati er þetta fólk með gjörólíkar þarfir.  
 
Og það kom síðan í ljós að starfsfólkið var líka mis vel að sér í umönnun sjúklinga eftir því hvorum hlutanum það tilheyrði.  Fyrsta daginn bað ég um aðstoð við að komast upp í rúm og setja kodda til að styðja við fótinn, það þurfti sem sagt að lyfta skorna fætunum upp fyrir mig, mátturinn ekki alveg 100% og það þarf alltaf að passa að hann sé í ákveðinni stöðu til að tryggja að ég fari ekki úr lið, meðan vöðvarnir eru að ná styrk aftur.  Má sem sagt aldrei fara að miðju (krossa fætur eða nálægt því) og svo má ég alsekki beygja mjöðmina þannig að hún fari uppí 90 gráður.  Og sjúkraliðinn sem kom til að aðstoða mig ættlaði bara að skella löppinni uppí rúm og var ekkert að pæla í hvort fóturinn færi of langt að miðju eða hvað þurfti að passa...þetta kostaði tilheyrandi sársauka og ég ákvað að reyna hér eftir að gera þetta bara sjálf.  Ég fattaði þetta síðan eina nóttina þegar ég var að spjalla við hjúkkuna á vakt, þá gat hún ekki svarað sumum spurningum þar sem hún sagðist vera svo lítið á bæklunarsviðinu.
 
En aftur að herbergisfélaganum... Fyrsta sem þessi krúttlega kona sagði þegar hún heilsaði mér var hvað hana hlakkaði til að geta spjallað og spjallað við mig á kvöldin.  Ég var ekki alveg eins spennt.
Fyrstu nóttina fór hún ansi oft á klósettið með tilheyrandi gauragang...og lokaði aldrei hurðinni, sagði mér að hún væri svo hrædd við svona stórar hurðar, á meðan lá ég vakandi og hlustaði á allt.  Undir morgun, einhverstaðar uppúr kl. 06 settist hún á rúmstokkinn og kveitkti og slökkti á lampanum sínum aftur og aftur og aftur....þetta þýddi sem sagt bara ræs and sjæn geri ég ráð fyrir.
Hún sagði mér sömu sögurnar aftur og aftur og spurði sömu spurningana aftur og aftur.  Og reglulega þurfti ég að hjálpa henni að leita að sama dótinu í veskinu eða leita að símanum á 3 mínútna fresti, sem var oftast í vasanum á náttsloppnum.  Það vill til að hún var voða dugleg að ganga þannig að þegar hún fór í göngutúr gat ég hvílt mig smá.
Seinni nóttina ættlaði hún aldrei að geta slökkt á lampanum sínum...  Þegar hún loksins fann takkann með tilheyrandi leiðbeiningum frá mér, slökkti hún en kveikti svo alltaf aftur og sagðist vera búin að slökkva...þetta tók smá tíma og stóran skammt af þolinmæði.  Þá nótt var hún alltaf að reyna að komast fram úr rúminu þeim megin sem grindin var upp...þannig að ég var alltaf að leiðbeina henni með að fara hinum megin framúr.  Og svo var nú að komast uppí...þá var hún búin að vefja sængina einhvern vegin utanum sig og kom bara ekki fótunum uppí fyrir sænginni....úfff...þetta tók á þolinmæðina !
 
Daginn eftir gékk henni illa að segja læknunum hvaða dagur og ár var...hélt því fram að það væri árið 50.  Þannig að þegar þeir voru farnir fékk hún mig til að fara yfir næstu dagsteningar með sér, sem hún skrifaði niður, hún hélt reyndar að það ætti að skrifa 2014 sem 214...en samt gott move hjá henni að skrifa þetta niður.  Hún ættlaði nefnilega að fara að drífa sig heim...fannst óþarfi að vera látin vinna þarna dag eftir dag...hún væri nú orðin 75 ára, ættlaði bara að fara að hætta.  Og svo þurfti ég reglulega að hringja fyrir hana eða laga símann hennar.....  Mér leið bara eins og ég væri komin aftur í sjúkraliðavinnuna mína.  Enda benti ég hjúkkunni og lækninum á að þau yrðu að kalla út auka starfsmann þegar ég færi.  Þau voru frekar miður sín þegar þau föttuðu hvað hún þurfti mikla aðstoð.
 
Sem betur fer á ég góða að sem gaukuðu reglulega að mér góðum mat, gourmei sjeikum og snarli.  Ef það er eitthvað sem ég get engan vegin skilið þá er það mataræðið sem er í boði á þessari stofnun.  Það hefur ekkert breyst síðan ég vann þarna fyrir 16 árum...nema kannski til hins verra ef eitthvað er.  
Hvernig getur brauðsneið með sultu og osti, marmarakaka, kleinur, kjötfarsbollur, hvít hrísgrjón og mauksoðið grænmeti (samt í mjög litlum skömmtum) hjálpað manni að ná upp orku, byggja upp vöðva og bein ???  Eitt skiptið var fiskur, ég varð voða glöð en bara í rosalega stuttan tíma...tók einn bita og fattaði þá að einhver er búinn að finna upp fiski-tyggjó.  Hvernig er hægt að klúðra soðnum fisk svona ??  Og svo var hann borinn fram með 3 litlum forsoðnum kartöflum, einhverskonar hvítum jafningi og kryddaður með dilli....  Æði !
Ég bara get engan veginn áttað mig á hvar næringarfræðingar Landspítalans hafa lært sitt fag...kannski eru bara engir næringarfræðingar starfandi þar lengur vegna fjárskorts...  Ég man allavega eftir að hafa lært aðra samsetningu á uppsetningu matseðla þegar ég var að læra næringarfræði fyrir um 20 árum.  
Mikið var nú gott að hafa alla sjeikana mína !  Veitir ekki af próteinu og fullt af vítamínum eftir aðgerð.  Þegar ég var á spítalanum útí Danmörku var mikil áhersla lögð á að allir ættu að drekka próteinsjeika eftir aðgerðina til að byggja sig upp og starfsfólkið var svo hrifið af Herbalife sjeikunum, sagði að þeir væru miklu betri en það sem þeir gætu boðið uppá.  Þannig að ég drakk bara sjeika og fékk mér heitt te og prótein bar í kaffitímanum.
 
Daginn eftir aðgerðina fór ég strax á röltið í göngugrind og var það ekkert mál, hjúkkurnar voru frekar hissa og sögðu að það væri ekki að sjá að ég hefði verið í aðgerð fyrir tæpum sólarhring.  Dag 2 fór ég ein í sturtu og þar sem ég er mjög vön, var búin að finna upp alskonar trikk í gegnum hinar aðgerðirnar, gat ég gert allt sjálf og þar á meðal klætt mig sjálf í buxur, sem er tæknilega það erfiðasta (ásamt því að fara í sokka) sem maður gerir eftir svona aðgerð.  
Þarna var búið að fjarlægja allar slöngur....súrefni, dren úr sári, þvaglegg og æðalegg þannig að ég var alveg frjáls.  Ég var líka búin að fara í göngutúr á hækjunum til að sýna sjúkraþjálfaranum að ég væri nú með doktorsgráðu í því.  Bara eins og að læra að hjóla... 
 
Eftir hádegið kom tengdó í heimsókn, og var svo séð að hafa með sér heitt vatn á hitabrúsa og bolla...  Mamma og amma höfðu nefnilega komið í heimsókn deginum áður og ég ættlaði að bjóða þeim uppá te...mamma stoppaði eina "gangastúlkuna" og spurði hvort hún gæti fengið heitt vatn.  Stúlkan spurði hvort það væri fyrir sjúkling...mamma - já meðal annars...stúlkan - ég skal koma með vatn fyrir hana.  Jebb...þær gátu sem sagt ekki fengið heitt vatn...en mamma "stal" sér samt venjulegu köldu vatni sem var þarna á ganginum.  Magnað !
 
En eftir að hafa afrekað þetta allt saman og vera eiginlega orðin sjálfbjarga fannst mér engin ástæða til að bíða þar til daginn eftir með að fara heim.  Kallaði á hjúkkuna og spurði hvort að ég mætti bara ekki fara heim núna......   Hún varð pínu hissa en ja...jú...sagðist ætla að tala við deildarlækninn.  Ég fékk grænt ljós á þetta, nappaði einn sjúkraþjálfarann þarna á ganginum og bað hana að fara yfir basic æfingarnar sem ég ætti að gera heima meðan tengdó og Rebekka pökkuðu niður fyrir mig og ca hálftíma seinna var ég komin útí bíl hjá tengdamömmu.  Þarna voru liðnar rúmar. 48 klst síðan ég kom niðrá vöknun eftir aðgerðina.
 
Það var svo dásamlegt að komast heim, komast í rúmið mitt, fá almennilegan mat, þurfa ekki að passa uppá einhvern og vera alltaf í einhverjum samræðum og bara fá frið......  HIMNARÍKI !!
 
 

Aðgerðardagur

Kvöldið fyrir aðgerð er helling sem þarf að gera...  Skipta á rúminu, vera klár með hrein föt og sokka, fjarlægja alla skartgripi og naglalakk, fara síðan tvisvar í sótthreinsisturtu þar sem maður skrúbbar sig frá toppi til táar með sótthreinsi svamp, þar með talið hárið...  Eftir þetta líður manni eins og hertum fisk...með vírhár.  Svo var það róandi tafla og blóðþynningarsprauta.
Vaknaði kl. 06 að morgni aðgerðardags og fékk mér eitt glas af H3O, sem er íþróttadrykkur frá Herbalife og inniheldur kolvetni, sölt og steinefni.  Gott fyrir átökin.  
Þegar ég kom niðrá spítala var að skella sér aftur í sótthreinsisturtu (þarna leið mér eins og húðin væri að rifna og hárið að detta af) og svo í fallega spítalagallann.  Síðan var sett upp nál, farið yfir tékklistann...hvort að þetta væri ekki örugglega ég og hvort að það væri búið að merkja mig.  Ég mátti alsekki fara inná skurðstofu nema læknirinn væri búinn að koma og merkja aðgerðarsvæðið.  Mér skildist á hjúkkunum að það þyrfti oftast að hringja eftir honum, hann kæmi ekki svona bara uppúr þurru að tékka á sjúklingunum sínum.
Eftir góða stund á undirbúningstofunni birtist snillingurinn...strunsaði að stólnum mínum, svipti upp teppinu, tússaði á mig ör, snérist við og æddi í burtu um leið og hann sagði "sjáumst"...  Vá..really ?! ehh...hvað varð um einfalda kveðju eins og "góðan daginn"...bara svona eins og þegar er komið að manni á kassanum í Bónus...
 
Ég rölti svo inná skurðstofu...  Skrítið að labba þarna í gegn, fyrsta hugsun var einhvers konar verksmiðja, reyndi að bægja orðinu sláturhús frá mér.  Allir voru "gallaðir upp" með "lambhúshettur" þannig að það sást bara rétt í andlitið á þeim.  Sumir voru að ýta á undan sér risagrindum með alskonar bökkum og varningi á...það var allt iðandi af fólki þarna.  Inná skurðstofunni mætti mér mjór bekkur, risa kastarar á örmum, alskonar skjáir og n.k. járnkoffort af öllum stærðum röðuð uppá hjólaborðum.  Ég giska á að þetta hafi verið verkfærakisturnar sem læknarnir nota í aðgerðinni.  Það þarf helling af tólum og tækjum fyrir svona brutal aðgerð.
 
Ég lagðist uppá bekkinn, var tengd við alskonar monitora og slöngur og fékk mænudeyfingu, fljótlega gat ég mig ekki hreyft fyrir neðan mitti og var bara hreyfð...í þá stellingu sem þurfti fyrir aðgerðina, pakkað inn að ofan þar sem skurðstofan er kæld niður meðan á aðgerð stendur.  Fékk síðan "kæruleysislyf" sem gerir mann svoldið dröggeraðann...besta tilfinning í heimi hehehe.  Svæfingalæknirinn var yndisleg kona sem útskýrði allt sem var að gerast fyrir mér.  Ég var vel vakandi í gegnum alla aðgerðina, en reglulega var hún að spyrja hvort hún ætti ekki að svæfa mig meira.  Ég neitaði því alltaf, er svo forvitin og vildi fylgjast með eins mikið og ég gat...var næstum því búin að biðja hana að taka teppið betur frá eyranu á mér svo ég myndi heyra betur hvað var verið að segja...en kunni ekki við það.
Sumum finnst kannski hálf óhuggulegt að vita af sér á meðan allt er í gangi, en þar sem ég var í upphafi hrædd við að vakna ekki, fannst mér frábært að sofna bara ekkert.  Og svo finnst mér þetta allt svo áhugavert.  En jú viðurkenni að það er svoldið skrýtið að finna höggin dynja á sér þegar er verið að banka liðinn úr og finna fyrir fræsaranum þegar var verið að fræsa fyrir nýju mjaðmaskálinni...allt samt svona í fjarska.  Þegar aðgerðin var búinn og var verið að flytja mig yfir í rúm til að fara á vöknun varð mér litið á skurðlækninn sem var alsettur litlum blóðslettum alveg upp á háls, þetta er svoldið brútal greinilega hehehe.
 
Ég hef sjaldan verið svona hress eftir aðgerð, var vel vakandi þegar ég kom inná vöknun og allt gékk vel...þangað til ég fékk morfíntöflu undir tungu, þá hrundi blóðþrýstingurinn, ógleðin heltist yfir mig og allt var að fjara út.  En hjúkkurnar voru snöggar að redda þessu með einhverjum lyfjum og mér leið strax betur og sofnaði góða stund.  Aðgerðin tók uþb 2 tíma og tíminn á vöknun ca 4 tímar.  Uppúr kl. 14 var ég orðin eirðarlaus og vildi bara fara að komast á deildina og hitta Malla, fékk svo loksins að fara þangað um 14.30.
 
Það var gott að komast niðrá deild, fá aðeins að hreyfa sig til í rúminu. Ég var orðin glorhungruð sem er nú óvanalegt hjá mér eftir aðgerð...oftast fundið fyrir mikilli ógleði.  
Loksins kom kaffitíminn og mér var boðið kaffi og marmarakaka....  Ehhh...ekki alveg það sem mig langaði í eftir átök dagsins.  Og klárlega ekki það næringarríkasta sem maður getur sett ofaní sig eftir aðgerð !!  En ég fékk ristað brauð og eplasafa.  
Allt gékk vel framan af, Malli, mamma, Eyrún og Áslaug kíktu til mín, það var svo gott að sjá alla.  En svo kom að því... allt fór að hringsnúast og fjara út.  Eyrún sagði "mamma þú ert orðin hvít í framan og varirnar þínar eru hvítar"!  Á sama tíma snérist maginn við og ég skilaði brauðsneiðunum.  Blóðþrýstingurinn féll niður í 70/40, á að vera 120/70, og hressleikinn var búinn.  Eftir þetta sofnaði ég bara og svaf frameftir kvöldi.

 

Það ískrar í mér !

Þá aftur að mjöðminni...

Í lok maí 2014 brá mér heldur betur...var að setjast þegar allt í einu ískraði í gerfiliðnum...  Ég prufaði að setjast og standa nokkrum sinnum og alltaf kom skerandi ískur.  Síðan bættust við smellir og klikk.  Fyrst fannst mér þetta bara svoldið fyndið og ég grínaðist með að nú þyrfti ég að fara að koma mér í smurningu.  Um kvöldið datt mér svo í hug að googla hvort að þetta gæti tengst eitthvað skjaldkirtlinum, þar sem hann var búinn að vera með svo mikið vesen, hver veit nema hann væri eitthvað að hafa áhrif á þetta líka.

Hjartað í mér tók kipp þegar ég las fyrstu greinarnar...og eftir því sem ég las meira fór maginn að fara í hnút líka.  Það sem blasti við mér var sjokkerandi !  Það hafði komið í ljós á svipuðum tíma og ég fékk liðinn minn að metal-on-metal liðir væri að valda fólki stórtjóni.  Fyrst var talið að þetta væru bara liðir frá ákveðnum framleiðanda og af ákveðinni stærð...en síðar kom í ljós að þetta átti við flest alla metal-on-metal liði.  

Það sem gerist í þessum gölluðu liðum er að það sverfist úr járninu með hverri hreyfingu, þessar járnagnir fara út í nærliggjandi vefi og geta valdið drepi í mjúkvefjum og beinum.  Einnig fara þær útí blóðráðsina og geta valdið Króm og Kóbalt eitrun, sem eyðileggur innkirtlakerfið. Einkennin á gölluðum lið: ískur, smellir og klikk ásamt hækkun á málmgildum í blóðinu s.s. króm og kóbalt og ónýtur skjaldkirtll !

Úff...!!  Við Malli lásum og grömsuðum og lásum meira.  Ég náði svo loksins sambandi við bæklunarlækninn minn (sem sendi mig í aðgerðina upphaflega, en ekki sá sem síðan skipti um liðinn).  Hann vildi fyrst ekki viðurkenna að þetta ætti við hér á Íslandi.  Sagði þetta bara vera tengt svokallaðri resurfacing aðgerðum (þá er sett málm hetta ofaná mjaðmakúluna, en ekki skipt um lið), svo sagði hann að þetta ætti bara við liðskipti þar sem notaðir væru extra stórir liðir, en svo í lokin "viðurkenndi" hann að þetta ætti reyndar við alla málmliði.  Þar sem ég var búin að lesa mér mjög vel til, lesa niðurstöður samtaka bæklunarlækna í Ástralíu, UK, Canda og USA og lesa fundargerð frá FDA þá þýddi ekkert að reyna þetta við mig.  Hann benti mér hins vegar á að tala við lækninn sem að skar mig þar sem þetta væri úr hans höndum.

Heimilislæknirinn minn sendi mig í blóðprufu til að mæla króm og kóbalt...þegar niðurstaðan kom úr því vildi hann helst að liðurinn yrði fjarlægður strax !  Kóbaltið var í efstu mörkunum eða rétt yfir eitrunarmörkum og krómið var tvöfalt sem það má vera, þannig að það var augljóst að eitthvað af þessum málmum úr liðnum var að eitrast út í blóðið. 

Mig kveið nú svoldið fyrir að hringja í skurðlækninn minn...hann er ekki sá besti í samskiptum, eiginlega bara hræðilegur og ef að hinn tók þessu svona illa og vildi bara hálfpartinn eyða þessari umræðu...þá var ég nú viss um að þessi nennti ekki að tala við mig. 

Mannaði mig uppí að hringja og brá eiginlega þegar hann vildi senda mig strax í röntgen og skvísa mér að hjá sér vikuna á eftir.  Fyrsti fundurinn með honum var hálf asnalegur (reyndar allir fundirnir)...fyrst gat hann ekki kveikt á tölvunni sinni til að skoða röntgen myndirnar, Malli var kominn hálfur hinumegin við borðið að hjálpa honum.  Endaði með því að við fórum fram í afgreiðsluna og þar skoðaði hann og greindi myndirnar.  Hann sá ekki neina beineyðingu og sagði þetta bara vera fínt.  Gott og vel...en hvað með stóru holuna sem er komin í vöðvana kringum liðinn, niður eftir lærinu og útá rasskinn...getur eiginlega snert lærlegginn.  Fyrst byrjaði hann að skoða mig eitthvað þarna í afgreiðslunni en áttaði sig svo að það væri smartara að gera það inná stofunni !!  Magnað !  Jú það var eitthvað bogið við þetta, best að ég færi í segulómun.  Þegar ég spurði útí hækkun á krómi og kóbalti og skjaldkirtilinn gerði hann bara lítið úr því, sagði að enginn vissi nákvæmlega hver mörkin ættu að vera eða hvaða áhrif það hefði að vera yfir þessum "svo kölluðu" mörkum.  Og svo sagði hann: "það er hægt að lesa sér til um allt og tileinka sér einkennin" !  Þar hafði ég það...ég var bara móðursjúk kelling sem gerði sér upp sjúkdóma...

4 vikum seinna hringdi hann í mig með niðurstöðurnar úr segulómuninni...það var langt samtal sem gaf mér lítil svör.  Hann sá sem sagt engin "gerfiæxli" - eitthvað sem er að myndast oft við þessa liði og er eitt af einkennum um ónýtan lið.  Við ræddum þetta fram og til baka og alltaf var lítið innihald í svöturnum, á endanum sagði hann að fyrst að þetta væri farið að fara svona á sálina á mér þá væri bara best að taka liðinn !  WHAT ?! Heldur maðurinn að hann sé bara að fjarlægja vörtu af mér eða...  Það er ekkert grín að fara í aðgerð og fá nýjan lið, það er ekki eins og það sé hægt aftur og aftur. 

Ég vil taka því fram að ég var ekki í sambandi við hann til að láta taka liðinn, eina sem ég vildi var almennileg skoðun á því hvort að liðurinn væri í lagi eða hvort að ég ætti að hafa áhyggjur.  Það síðasta sem ég vil er að fara í aðgerð...af svo ótal mörgum ástæðum.  En ég vil heldur ekki hafa eitthvað inní mér sem er að eitra útfrá sér og eyðileggja líffæri og éta upp mjúkvefina.

Eina sem ég vild var bara hreinskilin svör frá sérfræðingum á þessu sviði... Og spurningin var: Þarf ég að hafa áhyggjur eða er ég í góðum málum ?  Svörin: loðin eða engin, eða að ég væri móðursjúk, læsi of mikið á netinu og með vesen.  Mér finnst það ekki vera mjög faglegt...hvað þá árið 2014 þegar fólk er nokkuð vel upplýst og hvatt til þess að fylgjast með þegar kemur að heilsu og eigin velferð.

Niðurstaðan úr þessu símtali var fundur með honum niðrá Lansa þar sem hann komst betur í öll gögnin mín.  Sá fundur tók um 90 mínútur...aðalega af því að hann var alltaf að bulla eitthvað...sem kom spurningunni minni ekkert við.  Þegar ég minntist á að heimilislæknirinn minn hefði haft samband við kollega sinn í Svíþjóð sem er sérfræðingur í liðskiptingum og sá aðili sagði að þeir væru að fjarlægja þessa tegund af liðum...þegar fólk væri opnað kæmi í ljós að allir vefir væru í hálfgerðu mauki, sérstaklega hjá konum.  Svarið sem ég fékk við því: "Iss...hann XXX, veit alveg hver hann er, hann kemst ekki með tærnar þar sem ég hef hælana" !  Þarna átti ég bara ekki til orð........

Það var alveg sama hvað Malli reyndi að spyrja um eða kommenta á...það var eins og hann væri ekki þarna með okkur, læknirinn talaði bara ofaní hann eða lét sem hann heyrði ekki hvað hann var að segja.  Það var ekki fyrr en Malli byrsti sig og hélt áfram að tala og hækkaði róminn að hann svarði loksins.  Malli sagði: "Eina sem við viljum vita, þarf að taka liðinn eða er óhætt að hafa hann áfram?"  Þá loksins kom svar byggt á einhverju áliti.  "Mín skoðun er sú að það sé betra að taka hann, vil ekki hætta á að þú komir aftur eftir 2 ár og þá er allt komið í graut".  Ok þá höfðum við það.  

Af hverju var bara ekki hægt að skoða þetta almennilega, meta og gefa okkur heiðarlegt svar strax í upphafi.  Eða t.d. viðurkenna að þetta væri snúið mál...og ekki til nein hrein og bein svör.  Af hverju þurfti þennan töffaraskap og hroka og ég sem áhyggjufullur "þolandi" að eltast við að fá svör og líða á tímabili eins og móðursjúkum kjána.  Skil ekki svona framkomu og hegðun !

Þarna var svo settur upp aðgerðadagur 21. október, þar sem einhver sænskur læknir er þá staddur á landinu og vill vera viðstaddur aðgerðina.  Og þar með var fundi slitið.

Fyrsta sjokkið kom þarna um kvöldið, þrátt fyrir að ég hafi fundið það á mér þegar ég uppgvötaði þetta fyrst að þetta yrði niðurstaðan...samt voru þetta gríðarleg vonbrigði !  Næsta sjokk kom nokkrum dögum seinna þegar læknirinn hringdi og sagði að þetta yrði meiri aðgerð en hann bjóst við þar sem hann fengi ekki réttu "varahlutina" og yrði því að fjarlægja skálina sem er greipt inní beinið...smá vandræði...þar sem það er ekki svo mikið bein fyrir.

Ég ákvað að leyfa mér að vera sár, svekk, hrædd og reið...en bara í nokkra daga.  Veit að svoleiðis hugarfar kemur manni ekki langt.  Setti upp plan fyrir andlegan og líkamlegan undirbúning og ákvað að 1. september yrði dagurinn sem ég myndi byrja. Verð að viðurkenna að það er ekki alltaf búið að standast...suma daga hefur skjaldkirtillinn fengið að ráða deginum og þá þurfti ræktin að víkja og suma daga hef ég bara gleymt að stilla hugarfarið í upphafi dags og enda ekki á góðum stað...  En svo lengi sem maður er alltaf að gera sitt besta og reyna að gera betur í dag en í gær, trúi ég því að maður sé á réttri leið.

Efi og ótti...  Ég var lengi með efasemdir um að treysta lækninum, viss um að hann myndi ekki gefa mér heiðarleg svör um ástandið á þessu öllu þegar hann opnar mig...  Með ótta um að aðgerðin takist, ég geti gengið og gert það sem mig langar til eftir þetta allt.  Og í fyrsta sinn á æfinni hef ég fundið fyrir hræðslu við að fara í aðgerð...að ég muni hreinlega vakna aftur...er nú búin að fara í þær nokkrar í gegnum árin.

En ég get bara stjórnað þessu upp að ákveðnu marki, svo verð ég bara að sleppa takinu og treysta á æðri mátt, þetta er ekki í mínum höndum.  Og þegar maður gerir það finnur maður fyrir svo miklum létti...


Lang síðan síðast...

Ákvað að endurvekja þetta blogg í smá tíma...aðalega fyrir mig til þess að skrá niður og muna, meðan ég er að fara í gegnum aðgerð nr. 3 í þessari lotu á mjöðminni.  Var mjög dugleg að skrifa þegar ég fór 2009 og er ótrúlega gaman að lesa þetta eftir á, ýmislegt sem hægt er að læra af.

Kannski smá updeit frá því síðast....þar sem ég skrifaði ekkert um hvernig þetta fór allt saman.  Aðgerðin 2009 heppnaðist ekki betur en það að 10 vikurnar sem ég átti að vera á hækjum urðu að 1 1/2 ári !  Fékk loksins gerfilið í lok ágúst 2010.  Aðgerðin heppnaðist mjög vel, viku eftir að ég var komin heim var ég komin inní ræktina mína á hjólið, algjörlega verkjalyfjalaus.  Það tók mig svoldin tíma að komast almennilega á fætur aftur, þurfti að æfa mig svoldið í að ganga og fór árið 2011 meira og minna í það ásamt því að komast bara aftur almennilega í gang í lífinu og vinnunni, þurfti að endurhanna daglegu rútínuna eftir allan þennan tíma.  

Tíminn frá þessari aðgerð er búinn að vera frábær, eignaðist nýtt líf við að losna undan öllum þessum verkjum og geta gengið og hreyft mig aftur.  Ég fann fyrir miklu þakklæti yfir því að eiga þennan líkama, þrátt fyrir ýmsa galla...hehe og hét því að hér eftir ætla ég að fara eins vel með hann og ég mögulega get.  Síðustu ár hef ég verið markvisst að vanda mig við lífsstílinn, bæði hvað ég set ofaní mig, hreyfinguna og hugarfarið.  Ætla að gera allt sem ég get til þess að eiga hraustan líkama það sem eftir er.

Það eina sem skyggði á var endalaus þreyta sem hrjáði mig...hélt fyrst að það væri bara eftir svæfinguna og allt sem ég var búin að ganga í gegnum.  En í mars 2011 kom í ljós að skjaldkirtillinn var vanvirkur og þar kom skýringin á því hvers vegna ég komst varla framúr rúminu suma daga og barðist við að koma mér í föt og reyna að gera eitthvað smá, þó það væri bara að setja í uppþvottavélina.  Og ég sem var að passa lífstílinn minn svo vel, ætti að vera með endalausa orku..skildi þetta ekki !

3 dögum eftir að ég fór á lyf tók líf mitt vinkilbeygju !  Fékk lyf á mánudegi, reis uppúr rúminu um hádegi á miðvikudegi og seinni partinn var ég búin að þrífa baðherbergið með eyrnapinna hátt og lágt ! ÉG VAR KOMIN TIL BAKA !!

Spólum áfram...

Seinni part ársins 2013 fór ég að finna aftur fyrir mikilli vanlíðan, þreytu, svimaköstum, heilaþoku og fleiri einkennum en þar sem það var búið að vera mikið álag í vinnunni hélt ég að það væri bara málið og fór þetta bara svoldið á hnefunum.  Það var svo í lok janúar 2014 sem ég krassði algjörlega.  Þá var ég búin að vera að taka hressilega á því í ræktinni...svona eins og maður gerir á þessum árstíma.  Og á endanum kláraði ég mig.  Þá kom í ljós að ég hafði bara klárað thyroxin (skjaldkirtils hormónin) birgðirnar í líkamanum og líkaminn sagði bara hingað og ekki lengra !  Ég var algjörlega ÖRMAGNA og suma daga gat ég hreinlega ekki fundið orku til þess að klæða mig.  Heilaþokan var alveg að gera útaf við mig...gleymdi hvað ég var að segja í miðri setningu..fannst þetta mjög vandræðalegt.  Ýmsir vöðvaverkir, liðverkir og önnur vanlíðan blossaði upp þannig að það varð aftur frekar erfitt að komast í gegnum daginn.  Bara sem dæmi..þá gat ég gert 25 armbeygjur á tánum fyrir þetta, en þegar ég var sem verst náði ég með herkjum að gera 5 á hnjánum !!!  En eins og svo oft áður...hefst þetta með þrjóskunni og kreptum hnefa.

Sem betur fer hitti ég á góðan lækni sem vann með mig þangað til ég var komin í ágætt jafnvægi...sem tók 6 mánuði, trappa upp lyfin og trappa þau svo aðeins niður aftur og finna þennan gullna meðalveg. Svona eins og hægt er á þessum lyfjum...nú bíð ég eftir að jafna mig eftir aðgerðina og fæ þá betri lyf.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband