Spítaladvölin og herbergisfélaginn

Af fenginni reynslu veit ég að fyrsta nóttin er alltaf erfiðust...  En um leið og hún er búin fer allt að verða betra.  Þannig að nú var bara að þrauka.  Ég fór framúr með hjálp sjúkraþjálfara strax um kvöldið, reyndar stóð ég bara upp og steig aðeins í en mikið var það gott.  Var orðin agalega þreytt í bakinu að liggja svona.  Gerði líka nokkrar æfingar í rúminu og mátti fara að beygja fótinn og hreyfa hann meira sem var bara best í heimi !
Fékk reglulega stóra skammta af sýklalyfjum sem ég fann mun meira fyrir en í mjöðminni sjálfri...sveið upp hendina.  En annars leið mér mjög vel.
Fyrsta nóttin var bara nokkuð góð hvað varðar verki...  Ég svaf og dormaði svona í slumpum og fann lítið fyrir verkjum.  Það var aðalega bröltið í herbergisfélaga mínum sem hélt fyrir mér vöku.  Hversu oft er hægt að fara á klósettið á einni nóttu ??
 
Ég gerði mér fljótlega grein fyrir því að herbergisfélaginn minn var ekki alveg á sömu nótum og ég.  Yndisleg eldri kona sem hafði fengið blóðtappa og var frekar illa áttuð eftir það, en annars hress og jákvæð og alltaf syngjandi og brosandi.  Fyrst var ég ekki alveg að skilja hvers vegna hún lá inni á bæklunardeild ??  En svo komst ég að því að þessi deild var heila, tauga og bæklunardeild.  Mjög furðuleg blanda !  Hvers vegna að blanda saman fólki á þessum sviðum ?  Að mínu mati er þetta fólk með gjörólíkar þarfir.  
 
Og það kom síðan í ljós að starfsfólkið var líka mis vel að sér í umönnun sjúklinga eftir því hvorum hlutanum það tilheyrði.  Fyrsta daginn bað ég um aðstoð við að komast upp í rúm og setja kodda til að styðja við fótinn, það þurfti sem sagt að lyfta skorna fætunum upp fyrir mig, mátturinn ekki alveg 100% og það þarf alltaf að passa að hann sé í ákveðinni stöðu til að tryggja að ég fari ekki úr lið, meðan vöðvarnir eru að ná styrk aftur.  Má sem sagt aldrei fara að miðju (krossa fætur eða nálægt því) og svo má ég alsekki beygja mjöðmina þannig að hún fari uppí 90 gráður.  Og sjúkraliðinn sem kom til að aðstoða mig ættlaði bara að skella löppinni uppí rúm og var ekkert að pæla í hvort fóturinn færi of langt að miðju eða hvað þurfti að passa...þetta kostaði tilheyrandi sársauka og ég ákvað að reyna hér eftir að gera þetta bara sjálf.  Ég fattaði þetta síðan eina nóttina þegar ég var að spjalla við hjúkkuna á vakt, þá gat hún ekki svarað sumum spurningum þar sem hún sagðist vera svo lítið á bæklunarsviðinu.
 
En aftur að herbergisfélaganum... Fyrsta sem þessi krúttlega kona sagði þegar hún heilsaði mér var hvað hana hlakkaði til að geta spjallað og spjallað við mig á kvöldin.  Ég var ekki alveg eins spennt.
Fyrstu nóttina fór hún ansi oft á klósettið með tilheyrandi gauragang...og lokaði aldrei hurðinni, sagði mér að hún væri svo hrædd við svona stórar hurðar, á meðan lá ég vakandi og hlustaði á allt.  Undir morgun, einhverstaðar uppúr kl. 06 settist hún á rúmstokkinn og kveitkti og slökkti á lampanum sínum aftur og aftur og aftur....þetta þýddi sem sagt bara ræs and sjæn geri ég ráð fyrir.
Hún sagði mér sömu sögurnar aftur og aftur og spurði sömu spurningana aftur og aftur.  Og reglulega þurfti ég að hjálpa henni að leita að sama dótinu í veskinu eða leita að símanum á 3 mínútna fresti, sem var oftast í vasanum á náttsloppnum.  Það vill til að hún var voða dugleg að ganga þannig að þegar hún fór í göngutúr gat ég hvílt mig smá.
Seinni nóttina ættlaði hún aldrei að geta slökkt á lampanum sínum...  Þegar hún loksins fann takkann með tilheyrandi leiðbeiningum frá mér, slökkti hún en kveikti svo alltaf aftur og sagðist vera búin að slökkva...þetta tók smá tíma og stóran skammt af þolinmæði.  Þá nótt var hún alltaf að reyna að komast fram úr rúminu þeim megin sem grindin var upp...þannig að ég var alltaf að leiðbeina henni með að fara hinum megin framúr.  Og svo var nú að komast uppí...þá var hún búin að vefja sængina einhvern vegin utanum sig og kom bara ekki fótunum uppí fyrir sænginni....úfff...þetta tók á þolinmæðina !
 
Daginn eftir gékk henni illa að segja læknunum hvaða dagur og ár var...hélt því fram að það væri árið 50.  Þannig að þegar þeir voru farnir fékk hún mig til að fara yfir næstu dagsteningar með sér, sem hún skrifaði niður, hún hélt reyndar að það ætti að skrifa 2014 sem 214...en samt gott move hjá henni að skrifa þetta niður.  Hún ættlaði nefnilega að fara að drífa sig heim...fannst óþarfi að vera látin vinna þarna dag eftir dag...hún væri nú orðin 75 ára, ættlaði bara að fara að hætta.  Og svo þurfti ég reglulega að hringja fyrir hana eða laga símann hennar.....  Mér leið bara eins og ég væri komin aftur í sjúkraliðavinnuna mína.  Enda benti ég hjúkkunni og lækninum á að þau yrðu að kalla út auka starfsmann þegar ég færi.  Þau voru frekar miður sín þegar þau föttuðu hvað hún þurfti mikla aðstoð.
 
Sem betur fer á ég góða að sem gaukuðu reglulega að mér góðum mat, gourmei sjeikum og snarli.  Ef það er eitthvað sem ég get engan vegin skilið þá er það mataræðið sem er í boði á þessari stofnun.  Það hefur ekkert breyst síðan ég vann þarna fyrir 16 árum...nema kannski til hins verra ef eitthvað er.  
Hvernig getur brauðsneið með sultu og osti, marmarakaka, kleinur, kjötfarsbollur, hvít hrísgrjón og mauksoðið grænmeti (samt í mjög litlum skömmtum) hjálpað manni að ná upp orku, byggja upp vöðva og bein ???  Eitt skiptið var fiskur, ég varð voða glöð en bara í rosalega stuttan tíma...tók einn bita og fattaði þá að einhver er búinn að finna upp fiski-tyggjó.  Hvernig er hægt að klúðra soðnum fisk svona ??  Og svo var hann borinn fram með 3 litlum forsoðnum kartöflum, einhverskonar hvítum jafningi og kryddaður með dilli....  Æði !
Ég bara get engan veginn áttað mig á hvar næringarfræðingar Landspítalans hafa lært sitt fag...kannski eru bara engir næringarfræðingar starfandi þar lengur vegna fjárskorts...  Ég man allavega eftir að hafa lært aðra samsetningu á uppsetningu matseðla þegar ég var að læra næringarfræði fyrir um 20 árum.  
Mikið var nú gott að hafa alla sjeikana mína !  Veitir ekki af próteinu og fullt af vítamínum eftir aðgerð.  Þegar ég var á spítalanum útí Danmörku var mikil áhersla lögð á að allir ættu að drekka próteinsjeika eftir aðgerðina til að byggja sig upp og starfsfólkið var svo hrifið af Herbalife sjeikunum, sagði að þeir væru miklu betri en það sem þeir gætu boðið uppá.  Þannig að ég drakk bara sjeika og fékk mér heitt te og prótein bar í kaffitímanum.
 
Daginn eftir aðgerðina fór ég strax á röltið í göngugrind og var það ekkert mál, hjúkkurnar voru frekar hissa og sögðu að það væri ekki að sjá að ég hefði verið í aðgerð fyrir tæpum sólarhring.  Dag 2 fór ég ein í sturtu og þar sem ég er mjög vön, var búin að finna upp alskonar trikk í gegnum hinar aðgerðirnar, gat ég gert allt sjálf og þar á meðal klætt mig sjálf í buxur, sem er tæknilega það erfiðasta (ásamt því að fara í sokka) sem maður gerir eftir svona aðgerð.  
Þarna var búið að fjarlægja allar slöngur....súrefni, dren úr sári, þvaglegg og æðalegg þannig að ég var alveg frjáls.  Ég var líka búin að fara í göngutúr á hækjunum til að sýna sjúkraþjálfaranum að ég væri nú með doktorsgráðu í því.  Bara eins og að læra að hjóla... 
 
Eftir hádegið kom tengdó í heimsókn, og var svo séð að hafa með sér heitt vatn á hitabrúsa og bolla...  Mamma og amma höfðu nefnilega komið í heimsókn deginum áður og ég ættlaði að bjóða þeim uppá te...mamma stoppaði eina "gangastúlkuna" og spurði hvort hún gæti fengið heitt vatn.  Stúlkan spurði hvort það væri fyrir sjúkling...mamma - já meðal annars...stúlkan - ég skal koma með vatn fyrir hana.  Jebb...þær gátu sem sagt ekki fengið heitt vatn...en mamma "stal" sér samt venjulegu köldu vatni sem var þarna á ganginum.  Magnað !
 
En eftir að hafa afrekað þetta allt saman og vera eiginlega orðin sjálfbjarga fannst mér engin ástæða til að bíða þar til daginn eftir með að fara heim.  Kallaði á hjúkkuna og spurði hvort að ég mætti bara ekki fara heim núna......   Hún varð pínu hissa en ja...jú...sagðist ætla að tala við deildarlækninn.  Ég fékk grænt ljós á þetta, nappaði einn sjúkraþjálfarann þarna á ganginum og bað hana að fara yfir basic æfingarnar sem ég ætti að gera heima meðan tengdó og Rebekka pökkuðu niður fyrir mig og ca hálftíma seinna var ég komin útí bíl hjá tengdamömmu.  Þarna voru liðnar rúmar. 48 klst síðan ég kom niðrá vöknun eftir aðgerðina.
 
Það var svo dásamlegt að komast heim, komast í rúmið mitt, fá almennilegan mat, þurfa ekki að passa uppá einhvern og vera alltaf í einhverjum samræðum og bara fá frið......  HIMNARÍKI !!
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband